Oftar en ekki hafa vinir og vandamenn haft orð á því að ég sé óvenjulega óþolinmóð þegar verið er að horfa á bíómyndir. Ég verð óþreyjufull, missi athyglina og fljótlega allan áhuga.
Við þessum ókost hef ég reynt að bregðast við með því að raða upp nagalökkum, handaáburði, krossgátu, tímaritum, myndaalbúum, uppskriftarbókum og spilastokk við sófann í aumri tilraun til að halda mér fyrir framan sjónvarpið. Kvikmyndir grípa mig sjaldnast svo að ég sit sem límd við skjáinn og niðurnelgd í sófann með tárin í augunum og hjartað í buxunum.
Það gerist hinsvegar örsjaldan að kvikmyndir ná til mín en þegar það gerist er það yfirleitt sökum þess að ég verð yfir mig hrifin af ákveðnum karkater í myndinni. Ein af umræddum kvikmyndakarakterum sem ég heillaðist af á sínum tíma og hugsa raunar oft um er Margot Tenenbaum úr kvikmyndinni The Royal Tenenbaums.
Leikritaskáldið fámælta Margot er snilldarinnar leikin af hinni annars hundleiðinlegu Gwyneth Palthrow. Nú má landinn vera ósammála mér en ég þoli ekki Gwynnie (ég kalla hana það því ég er fullviss um að henni finnist nafna-styttingar vera lágmenningarlegt fyrirbæri upprunið í úthverfum af fólki sem plastar sófasettin sín).
Hins vegar tekst Gwyneth á einhvern hátt að hámarka snobbheitin og yfirstéttarþunglyndið þannig að úr verði karakter sem er svo innilega leiðinleg en samtímis heillandi og jafnvel fyndin á köflum (húmor þekkir Gwyneth víst ekki, ætli hún haldi ekki að það sé ensím sem sléttir úr fellingum og ellimerkjum á úlliðum).
The Royal Tenenbaums er frábærlega góð kvikmynd sem ég get ekki mælt meira með en meðmælin eru þó aðallega fólgin í tjáningu Gwyneth Palthrow á Margot Tenenbaum. Þar að auki er útlit hennar virkilega niðurdrepandi og chic, minkapelsinn við tenniskjólinn – svo ekki sé talað um grunge makeup-ið og slétta hárið. Allt við týpuna gengur fullkomlega upp og er tréputtinn svo sannarlega punkturinn yfir i-ið (það vantar s.s á hana fingur, brilliant!)
Myndin skartar úrvals leikurum og raunar mætti segja að hver og einn karakter í myndinni sé stórkostlegur, hin tilfinningasnauða og melódramatíska Margot náði einfaldlega sérstaklega til mín.
Það ætti enginn að láta kvikmyndina The Royal Tenenbaums fram hjá sér fara
Anna Margrét er fædd í Reykjavík árið 1987, en hefur alið manninn í Svíþjóð, Suður Ameríku og víðar.
Anna er krabbi, og þykja þeir hinir kátustu. Tíska, förðun, jafnrétti, skrif og ferðalög um Afríku eru nokkur af hennar áhugamálum.