Þegar ömmur okkar voru ungar var mjög mikið lagt upp úr því að konur væru dömulegar. Ef þú varst ekki dömuleg, elegant og móðins þá gastu eins farið út í fjós að borða hey.
Til að verða sem dömulegastar æfðu stelpur sig m.a. í því að taka af sér hanska með því að tosa bara í einn putta í einu, ganga með bók á höfðinu til að vera nú bein í baki og borða þannig að oddarnir á gafflinum sneru niður en ekki upp.
Þessar æfingar voru eflaust tímabærar fyrir ömmur okkar því ömmur þeirra, s.s. langalangömmur okkar voru flestar álíka dömulegar og Gísli á Uppsölum, enda höfðu fæstar komið í borgir og hvað þá numið fína siði sem tíðkuðust í mannlífi stórborganna. Ísland var lengi vel jafn einangrað og Grænland og við því aðeins seinni í gang en kynsystur okkar á meginlandi Evrópu.
Dama dagsins í dag veit hvað hún á að gera og hvernig hún gerir það. Þá er ég ekki að tala um hvernig best sé að tosa af sér hanskana, nota sniglagaffalinn eða hagræða litla hattinum án þess að virka vúlgar, enda óþarfi þar sem þetta eru ekki vandamál í okkar daglega lífi (nema kannski ef við heitum Dorrit).
Dama þarf að kunna að takast á við þau vandamál sem koma upp í mannlegum samskiptum. Hún þarf að vita hvort hún á að kyssa tvisvar eða þrisvar, hvort hún á að svara gemsanum allstaðar, skamma búðafólk eða fara í fýlu þegar henni er gefinn ljótur kertastjaki. Dama kann að taka tillit til annara án þess að yfir hana sé vaðið. Dama skilur eftir sig stjörnuglys hvar sem hún kemur og lætur fólki líða vel. Sönn dama er ekki mikið fyrir drama heldur er hún eftirsóttur fagurkeri sem aðrar konur vilja líkast.
Dæmi um dásamlegar dömur:
- Rikka, sjónvarpskona.
- Dorrit, forsetafrú.
- Guðrún Katrín, fyrrum forsetafrú.
- Vigdís Finnbogadóttir, fyrrum forseti.
- Audrey Hepburn, leikkona.
- Katrín Middleton, hertogaynja á Englandi.
Samskipti
Dama þarf fyrst og fremst að vera vel að sér í samskiptum. Allir muna eftir krúttinu Bridget Jones og hennar frábæra samskiptaklúðri. Hún er gott dæmi um stelpu sem langar til að vera dama en tekst ekki alltaf vel upp. Samskipti eru samt ekki bara það að klúðra ræðu eða segja óviðeigandi hluti við fólk sem maður þekkir ekki vel. Samskipti eru líka tölvupóstsendingar, gemsanotkun, bréfaskriftir og fleira.
Hér eru nokkar pælingar í sambandi við dömusiði í samskiptum:
SÍMINN
Það er magnað hversu margir halda að það sé í stakasta lagi að fara út að skemmta sér, eða á kaffihús með fólki, en hanga svo í símanum allann tímann.
Þetta er ekki dömuleg framkoma. Ef þú stendur þig að því að kjafta meira í símann en við manneskjuna sem þú fórst með á kaffihús, reyndu þá að koma því við að hitta hana aftur síðar þegar þú þarft ekki að tala í símann á meðan. Eða enn betra. Settu símann á silent og slepptu því alfarið að svara eða hringja á meðan þið eruð að spjalla, nema brýna nauðsyn beri til.
Reyndu alltaf að forðast löng símtöl í gsm síma þegar hringt er í þig. Bjóddu líka viðkomandi að hringja í landlínu ef þú hefur tök á því.
Ef þú ert að kjafta við einhvern í heimasímanum eða á skrifstofunni og gemsinn hringir. Ekki þá svara gemsanum! Það er dónaskapur að reyna að taka tvö símtöl í einu.
GJAFIR
Þegar fólk gefur þér eitthvað þá er það alltaf góð hugmynd að þakka fyrir sig með korti eftir á. Ef það er of formlegt fyrir þig þá er um að gera að senda bara tölvupóst. Ef einhver gefur barninu þínu skemmtilega gjöf þá er um að gera að hvetja barnið til að þakka fyrir sig með teikningu, eða þá að þú getur skrifað tölvupóst og sagt takk fyrir hönd ungans.
Úmah* Úmah*
Réttu alltaf ókunnugu fólki hendina ef þú veist ekki alveg hvort þér beri að kyssa viðkomandi hæ eða bæ þegar svo ber undir. Ef þú síðan kynnist manneskjunni eitthvað um kvöldið þá er ekkert sem mælir gegn því að þú kyssir loftið við eyrað á henni þegar þið kveðjist. Ekki fara í það að kyssa ókunnugt fólk beint á kinnina eða því síður munninn, og ekki vera mikið í því að kyssa börn ókunnugra. Fólki er sjaldan vel við það.
Taktu við hrósi
Dama kann alltaf að taka við hrósi. Hún fer ekki að afsaka fötin sem hún er í eða lýsa því yfir hvað þau voru nú ódýr á útsölunni. Segðu bara takk. Það er alveg nóg.
Á veitingastað
Stundum langar þig til að kvarta á veitingastað en vilt ekki til að skapa vandræði þannig að þú þegir og sættir þig við lélegheitin.
Af hverju ruglum við því saman að kvarta og skapa vandræði? Þetta er sitthvor hluturinn. Þótt þú kvartir þá ertu ekkert að búa til senu. Þú ert bara að kvarta og átt fullan rétt á því. Sem neytandi áttu í raun að láta skoðun þína á þjónustu og mat í ljós. Þú ert að borga fyrir þetta. Það skiptir samt að sjálfssögðu máli hvernig þú kvartar. Það er hægt að kvarta en vera samt kurteis. Taka þessu með smá húmor. Nálgast þjóninn vinalega. Spyrja t.d -Fyrirgefðu, en getur þú sagt mér af hverju, eða hvernig… o.s.frv. Ekki vera freka brussan. Vertu kurteisi fagurkerinn. Daman.
Ertu Dóni eða Drengur góður?
Einu sinni tóku herramenn ofan þegar þeir mættu dömu á götu. Opnuðu dyr. Fóru úr jakkanum ef stúlkunni var kalt og lögðu yfir axlir hennar. Borguðu alltaf matinn á veitingastaðnum og hjálpuðu henni að komast út úr bílnum. Kysstu hana bless á útidyratröppunum og keyrðu svo kátir heim, alsælir yfir því að vera guðs gjöf til konunnar. Sannkallaðir herramenn. Mjúkir menn. Gentle men.
Íslenskum karlmönnum virðist reynast það erfitt að pikka þessa siði upp, enda af sama sauðahúsi og ömmur okkar, en í Bandaríkjunum lifa þeir enn góðu lífi og eru yfirleitt í hávegum hafðir þegar fólk er að byrja að skjóta sér saman. Það er að segja, fyrstu vikurnar og dagana í sambandinu. Þegar nándin verður meiri byrja þeir hinsvegar að ropa, klóra sér í pungnum og skella hurðinni á nefið á henni ef þannig liggur á þeim.
Líkt og með sniglagaffalinn og það að kunna að tosa hanskana af sér eins og dama, þá skipta þessir siðir litlu máli. Nema kannski þetta með að lána henni jakkann ef það er kalt úti. Herramaður dagsins í dag er fyrst og fremst nærgætinn og kurteis ungur maður sem vandar sig að vera næmur á aðstæður annarra.
Hrósaðu
Sannur herramaður kann að láta dömum líða eins og þær séu hefðardömur. Hann hrósar þeim óspart hvort sem þær eru ömmur, feitar frænkur eða fagrar meyjar. Hann hrósar ekki út í loftið heldur finnur sér alltaf eitthvað sérstakt til að fagna og gerir það á sannfærandi og einlægan hátt.
Hann segir ömmu sinni að hún lýti vel út. Að hendurnar hennar séu fallegar og hlýjar. Hann segir Fjólu feitu frænku að hún hafi grennst, jafnvel þó hún sé enn jafn feit og síðast, og hann segir Siggu sætu að hún sé svo ákveðin og klár.
Vertu karlmaður
Strákarnir fengu vöðvana og stelpurnar vitið. Ekki láta hana bera pokana heim úr Bónus ef þú ert ekki með höndina í fatla. Það er ekkert að því að vilja halda á pokum fyrir konu. Þetta er bara líffræði. Strákar eru sterkari og af hverju ekki að nýta sér það? Það eru fáar dömur sem heimta að fá að bera poka til að sanna kvenmennsku sína, en ef hún krefst þess, þá að sjálfssögðu segir þú ekki nei.
Þetta með dyrnar
Það er herramennska að opna dyr fyrir konum. Samt ekki á svona áberandi asnalegan hátt þannig að þú sprangar eins og Gosi framfyrir hana og feykir upp hurðinni með svaka tilburðum. Nei. Þú opnar bara eins og það sé þér afar eðlilegt og lætur dömuna smjúga framfyrir þig. Engan æsing. Bara mjúkur.
Á veitingastaðnum
Þetta með reikninginn. Það er fín regla að sá/sú sem stingur upp á því að fara út sjái um að borga reikninginn. En ef þú stingur upp á því að þið farið út að borða, þá væri það mjög herramannslegt af þér að borga reikninginn í leiðinni. Svo fer þetta líka eftir peningamálunum. Ef daman er fátækur námsmaður sem stingur upp á því að þið farið á Austur-Indía félagið þá er sætt að láta hana bara borga fyrir sjálfa sig og svo borgar þú fyrir sjálfan þig. Aldrei ætlast til þess að hún borgi allt nema hún sé í betur launuðu starfi en þú.
Konur eru nefninlega enn með 30% lægri laun en karlar. Ættum við þá ekki að fá “konuafslátt” eins og eftirlaunaþegar? Svona þar til þessu verður endanlega kippt í lag? Spurning um að láta gefa út skírteini hjá Tryggingastofnun?
En… þar höfum við það. Dama eða drusla, dóni eða drengur góður? Hvort viljum við vera? Vinnum í þessu.
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.