Myndin Malavita eða The Family fjallar um Manzoni fjölskylduna sem er nýflutt í vitnavernd til Normandi í Frakklandi.
Fjölskyldan á erfitt með að aðlagast eðlilegu lífi utan mafíunar og er sífellt til vandræða en vitnaverndin hefur þurft að flytja fjölskylduna nokkrum sinnum og er orðin frekar þreytt á veseninu á þeim. Mafían hefur kallað til alla sína verstu hrotta í von um að einhver finni Manzoni fjölskylduna, sá sem finnur hana og drepur hana alla fær greidda afar fína upphæð í reiðufé!
Of miklar væntingar
Ég varð ofboðslega spennt þegar ég sá trailerinn fyrir þessa mynd, var alveg vá! vá! vá!
Luc Besson að leikstýra og Martin, bestivinurminn, Scorsese að framleiða, Robert De Niro í öllu sínu mafíuveldi og Michelle Pfeiffer (sem lék ung í Scarface).
Saman komin í eitthvað geðveikt. Ég er mikill mafíuáhugakona og finnst flestar myndir um mafíuna æði. Hef séð myndir á borð við Goodfellas, Casino, allar Godfather myndirnar og Scarface ásamt svo mörgum öðrum oftar en ég vil viðurkenna og meirasegja farið á amazon.com og pantað mér geisladiska með tónlistinni úr þessum myndum. Sérstaklega myndir eftir Martin Scorsese, finnst hann velja lögin einstaklega vel í sínar myndir.
Ég var svo viss um að þessi mynd væri geðveikt góð og ég myndi geta bætt henni í flotta mafíusafnið mitt en…
Því miður verð ég að viðurkenna að mér fannst þessi mynd alls ekki spes. Og ef ég á að miða við mína þekkingu á mafíunni útfrá bæði heimildarmyndum og Hollywood myndum, þá var þetta frekar óraunverulegt. Það er verið að mjólka mafíu ímynd Robert De Niro svo mikið að ég fékk bara kjánahroll. Svo eru börnin hans í myndinni voða inní gamla mafíulífstílnum og konan líka sem er eitthvað sem maður er ekki vanur að sjá í myndum um mafíuna.
Jú, kannski synirnir en ekki dætur og mæður. Þær gera eitthvað annað og vita ekki neitt. Og oftast eru synir mafíósanna teknir inní “the way of the family” þegar þeir eru orðnir aðeins eldri en sonurinn er í þessari mynd. Ef eiginkonurnar eru eitthvað inní hlutunum sem eiginmennirnir eru gera þá er það bara lítið brot af því sem þeir eru að stússast.
[youtube]http://www.youtube.com/watch?v=dlx9awqEV74[/youtube]
Það var reyndar alveg hægt að hlæja að nokkrum atriðum í myndinni en þetta er ekki mynd sem þarf að blæða á í bíó … Fín í þynnkunni á sunnudegi eða leigð á leigunni. Nett Analyse this og Analyse that dæmi en ekki mynd fyrir ástríðufulla mafíósaáhangendur eins og mig.
Michelle Pfeiffer ber aldurinn vel
Það var reyndar mjög gaman að sjá hversu vel Michelle Pfeiffer eldist og lítur vel út en ég hef alltaf verið hrifin af henni sem leikkonu. Virkilega gaman fyrir aðdáendur hennar því hún hefur ekki komið fram í kvikmyndum í góðan tíma.
Robert De Niro er líka alltaf flottur. Myndin gerist mestmegnis í Frakklandi í heillandi smábæ og allt var mjög vel gert sem snýr að yfirbragði og leikmunum. Húsið sem þau flytja í er mjög flott og þú færð alveg að sjá og finna franska vintage fílingin.
- Leiksjórn: Luc Besson
- Aðalleikarar: Robert De Niro, Michelle Pfeiffer, Dianna Agron, John D´Leo
Anna Brá Bjarnadóttir er fædd á því herrans ári 1986, sama ár og Gleðibankinn hóf raust sína í júró, sem er mögnuð tilviljun þar sem stúlkan er sjálf vel stæður Gleðibanki! Anna starfar sem skemmtanastjóri og dj á Loftinu og Lebowski Bar en er á sama tíma algjör græju gúrú og fíkill. Anna er útskrifuð af tæknibraut Kvikmyndaskóla Íslands og hefur m.a. starfað við fjölda auglýsinga og sjónvarpsþátta. Hún býr við Norðurmýrina með hundinum Tinna og kærastanum og kokkinum Jónasi.