Pör hafa oft komið sér upp lífsmynstri sem inniheldur óhollustu og þegar annar aðilinn ákveður að taka sig á, finnst hinum oft vera svolítið vegið að sér og makinn þá oft ekki tilbúinn í sömu breytingar og þú.
Viðbrögð makans yfir því að þér gengur vel að grennast geta verið mismunandi. Allt frá því að veita 100% stuðning í að bregðast með neikvæðum athugasemdum sem gera þér oft erfitt fyrir að halda áfram á léttingsbraut.
Ein leið til að skilja viðbrögð makans er að skoða þau svolítið og munu á næstu dögum birtast fjórar færslur til viðbótar með dæmigerðum neikvæðum viðbrögðum og ráð við þeim en hér fyrir neðan er fyrsta færslan.
Er maki þinn með neikvæðar athugasemdir varðandi léttinginn þinn ?
Hver gæti verið ástæðan?
Yfirleitt er ótti á bak við þessa hegðun. Maki þinn er hræddur um að missa þig og lífið eins og hann þekkir. Hann er líka óöruggur með breytingarnar og með því að vera með neikvæðar yfirlýsingar er hann oft að reyna að fá þig aftur í fyrra form til að missa þig ekki eða lífið sem hann þekkir.
Hvað er hægt að gera?
- Búa til nýjar hefðir þannig að makinn hafi líka áhrif á hvernig líf ykkar er að þróast.
- Í staðinn fyrir að hætta að kaupa nammi á laugardögum yfir laugardagsmyndinni kaupið eitthvað hollara sem ykkur þykir báðum gott og haldið í kósí stundina yfir sjónvarpinu.
- Leyfðu honum að taka þátt í því sem þú ert að gera og mundu að láta hann vita að þú elskir hann eins og hann er.
- Einnig er mikilvægt að þú látir í ljós hvernig þér líður ef neikvæðar athugasemdir dynja yfir þér – en það gerir þú aðeins með því að tjá þig.
Sigrún Þöll Þorsteinsdóttir (f.15 feb 1975 – d. 8 apríl 2014) bloggaði á Pjatt.is í rúmlega tvö ár.
Sigrún Þöll starfaði sem tölvunarfræðingur, var dellukona, tækjasjúk og fagurkeri af lífi og sál. Að eigin sögn fannst Sigrúnu gaman að hlaupa, hjóla, drekka kaffi, huga að heilsunni, prjóna, lesa, taka ljósmyndir, rækta garðinn sinn og fleira og fleira. Blessuð sé hennar minning. Sigrún verður ógleymanleg þeim sem kynntust þessari dásamlegu konu.