Madonna er ekki þekkt fyrir að vera með lélegan sjálfsaga. Þvert á móti er þetta líklegast öflugasta konan í skemmtanabransanum og það til margra ára.
Þetta kemur væntanlega ekki með heppni því Madonna er týpan sem vinnur fyrir því sem hún fær upp í hendurnar og það hefur hún alltaf gert.
Hún er líka sú sem beitir sjálfa sig mesta aganum þegar kemur að mataræði en Madonna hefur til margra ára verið á því sem kallast makróbíótískt fæði.
Þetta þýðir að hún setur ekki ofan í sig egg, hveiti, kjöt eða mjólkurvörur. Á sama tíma æfir hún mjög stíft, í raun svo stíft að helstu keppendur fyrir ólympíuleikana gætu virkað sem letihaugar í samanburðinum.
Helstu æfingar Madonnu eru dans, hlaup og hverskonar styrktaræfingar en til að styðja andann iðkar hún gömul trúarbrögð úr gyðingdómi sem heita Kabbalah.
Á innkaupalista manneskju sem lifir á makróbíótísku fæði eru meðal annars bygg, mísó súpa, tófu og allskonar grænmeti – þá sér í lagi sitthvað sem kemur úr hafinu eins og söl og þessháttar.
Það er frekar erfitt að setja sig í spor þessarar konu. Ekki einasta er hún heimsfræg og hefur verið það sirka síðustu þrjátíu árin, heldur er hún líka einstæð móðir með þrjú börn og múltí milljarðamæringur sem rekur fjöldann allan af fyrirtækjum útum gervöll Bandaríkin.
Hún á sér fáa líka en margar sem myndu vilja líkjast henni. Spurning samt hvað við myndum endast lengi á makróbíótísku fæði?
Líklegast ekki svo lengi, og eflaust margt annað skemmtilegra í hennar lífsstíl sem er þess virði að taka sér til fyrirmyndar. Þó ekki væri nema bara ‘attitjúdið’. Snillingur.
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.