Ekki er vitað afhverju Madame de Florian yfirgaf íbúð sína í París rétt fyrir seinni heimstyrjöldina og fluttist til suður Frakklands en eitt er víst að hún snéri aldrei tilbaka.
Þessar myndir eru teknar úr íbúðinni sem er staðsett í hjarta Parísar, rétt við óperuhúsið og rauðahverfið Pigalle.
Madame de Florian greiddi afborganir af íbúð sinni samviskusamlega eða allt þar til hún lést nýlega, 91 árs gömul.
Ættingjar hennar vissu ekki um íbúðina fyrr en farið var í gegnum erfðaskrá og fannst þá þessi eign hennar í skjölum. Sérfræðingur sem skoðaði munina sem legið höfðu ósnertir í 70 ár , líkti íbúðinni við ævintýri Þyrnirósar þar sem kóngulóarvefir og þykkt ryklag lá yfir öllu.
Hann lýsir hárri lofthæð, eldhúsvaski sem gerður var úr gegnheilum steini og gömlum ofni sem hitaður var upp með eldiviði, uppstoppuðum strút og Mikka Mús leikfangi frá því fyrir stríð ásamt dýrmætu borði, skartgripum og öðrum dýrgripum. Það sem var þó verðmætast í íbúðinni var stórt málverk af konu í ljósbleikum kjól eftir listmálarann Giovanni Boldini, sem við nánari skoðun reyndist vera máluð 1898, af ömmu de Florian sem þá var einungis 24 ára.
Þá fundust einnig ástarbréf í silkiborða en bréfin voru frá mörgum aðdáendum Madame de Florian. Kom þar fram að hún hafði einnig verið ástkona Giovanni Boldini. Málverk Giovanni Baldini af Madame de Florian seldist á uppboði á metverði 2.1 milljón evra.
Það er öllum ráðgáta hvers vegna hún fór aldrei tilbaka til Parísar en mig grunar helst að hún hafi lent í ástarsorg, eða borgaði hún af íbúðinni af gömlum vana, líkt og ég geri með happdrættismiðann minn -hann er bara þarna.
Hver sem ástæða hennar var, þá hefði ég svo gjarnan viljað vera sú manneskja sem snéri lyklinum í skránni í fyrsta sinn í 70 ár og að fá að ganga inn í íbúðina sem legið hafði ósnert allan þenna tíma.
Díana Bjarnadóttir útlitsráðgjafi og stílisti hefur margra ára reynslu við að aðstoða fólk með fataval. Hún starfaði meðal annars á Ítalíu og í London þar sem hún var stílisti stjarnanna hjá Giorgio Armani og Gucci.
Hefur einnig verið búsett í svíþjóð, Hollandi og á Selfossi en býr nú í Reykjavik. Díana er einnig með menntun í förðunarfræði. Greinar og ljósmyndir Díönu hafa m.a. verið birtar í tímaritunum Veggfóður, Ský og Smáralindarblaðinu. Díana er fædd 1. maí og er því naut.