Janúar er mánuðurinn hennar Sólveigar Sigurðardóttur. Í janúar 2012 hóf hún allsherjar lífstílsbreytingu, byrjaði að hreyfa sig og borða hollt en síðan hefur hún misst um 50 kíló allt í allt.
Þegar fólk léttist mikið verður það stundum svo að húðin hangir slöpp utan á líkamanum svo að í janúar á þessu ári fór Sólveig í stóra svuntuaðgerð eftir að hafa misst um 46 kíló.
„Þetta er umfangsmesta svuntuaðgerð sem hefur verið gerð í Domus enda var ég með risastórt kviðslit líka,” segir Sólveig. „Það var Ágúst Birgisson lýtalæknir sem gerði aðgerðina en stundum þegar ég hugsa til þessa manns sé ég fyrir mér engil. Hann er þvílíkur fagmaður og kærleiksríkur í garð sjúklinga,” segir Sólveig glöð og bætir við að hann hafi jafnvelg bjargað sálartetrinu hennar í leiðinni.
„Stundum tel ég hann hafa bjargað sálartetrinu mínu líka… ekki bara mallakútnum. En var þetta bara pís of keik? NEIBB. En þess virði? JÁ! Og færi aftur á morgun í þessa aðgerð ef ég þyrfti þess!”
Gat ekki dregið inn magann
Við aðgerðina fóru fimm kíló til viðbótar enda var svo komið að Sólveig réði ekki við þennan ónýta maga eins og hún orðar það.
„Ég var með stórt kviðslit og gat ekki dregið magann inn. Miklir verkir fylgdu því að hafa magan svona hangandi og það var vont að vera í þröngum fötum. Samt varð ég að vera alltaf í þröngum aðhaldsbol til að þrauka daginn.”
„Margir sjá bara fyrir sér mína “lífsstílsbreytingu” sem eitthvað svo ofurlétt og dæma sjálfa sig úr leik við minnstu hindrun. Mín lífsstísbreyting hefur verið svo mikil rússibanaferð en ég hef aldrei gefist upp.
Ekki einu sinni þegar að drenin mín voru í níu daga hangandi útúr maganum, full af allskonar “gleði” sem líkaminn sá um að losa sig við,” segir Sólveig og bætir við að hún hafi ekki getað sofið í nokkrar vikur og varla staðið undir sjálfri sér. „En að gefast upp?! Nei. Aldrei!”
En hvernig er lífið í dag 8 mánuðum eftir þessa stóru aðgerð?
„Hreinlega annað líf. Ég þarf ekki lengur að passa að púðra magann því ég gat ekki verið í nærfötum nema með púðraðan maga. Það fylgir því bæði kláði og mikill sviti að hafa skinnið svona hangandi. Ég gat varla orðið tekið þátt í leikfimi lengur og hvorki hlaupið né stokkið. Fyrir utan þetta smávægilega…..að passa ekki í nein föt og vera stöðugt með magann á heilanum… passa að láta ekki sjást í þennan maga, alls ekki fara í sund og heita potta eða búningsklefa. Samt var ég búin að missa öll þessi kíló!.”
Sólveig bendir áhugasömum á að hugsa ekki bara um hversu mörg kíló eigi að fara, það þurfi að huga að heildarmyndinni.
„Ég var ekki með hraustan líkama þarna í restina og hann þurfti á leiðréttingu að halda. Ég gat ekki haldið svona áfram en fyrir þetta borgar maður sitt. Við sem sitjum eftir með svona vandamál þurfum að greiða fyrir það. Ekkert mamma mía neitt,” segir Sólveig sem var send heim sama dag og aðgerðinni lauk, með skurð næstum hringinn í kringum mjaðmalínuna.
„Baksvæðið sjálft slapp hjá mér og ég tel að það hafi verið mikil lukka og þakka miklum líkamsæfingum en
að koma sér heim til sín nærri skorin í hring…..já það er önnur saga,” segir Sólveig sem veiktist talsvert eftir aðgerðina og þurfti góðan tíma til að jafna sig en hún lætur það litlu máli skipta.
Breytti öllu lífinu til hins betra
„Þessi aðgerð breytti öllu lífi mínu til hins betra. Ég kemst í þau föt sem mig langar. Hér áður gat ég ekki verið í fötum með streng en núna á ég gallabuxur, nokkur belti og sitthvað fleira og ég er öll að koma til í ræktinni. Farin að hlaupa og spretta og er sterk eins og kengúra. Það eina er að ég get ekki lagst á magann við æfingar og þarf að passa mig á sumum þeirra þó það votti ekki fyrir verkjum.”
Sólveig leggur áherslu á að þetta sé ekki auðveld aðgerð og að það sé nauðsynlegt að velja sér góðan lækni og gefa sér góðan tíma til að ná bata, bæði andlega og líkamlega. Hún ráðleggur öðrum sem þurfa á svona aðgerð að halda að hika ekki við að kýla á hana og hún mælir heilshugar með Ágústi Birgissyni lækni.
„Ég færi ekki til annars læknis. Hann heldur svo vel utan um sínar aðgerðir og maður er í góðum höndum sem er svo ofsalega mikilvægt,” segir hún að lokum.
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.