„Ég les ekki Vogue vegna þess að það fær mig til að líða illa að geta ekki keypt allar þessar lúxusvörur“
Þessa setningu hef ég oft heyrt og jafnvel stundum hugsað sjálf, að fletta í gegnum þetta glæsirit er algjör pína ef maður hugsar á þennan veg. En eftir að hafa lesið mörg viðtöl við nýríkar konur þar sem þær lýsa því með nostalgíu hversu hamingjusamar þær í raun voru þegar þær áttu ekkert og gátu aðeins flett tískuritum og látið sig dreyma breyttist sýn mín.
Leiðin að markmiðinu er oft ánægjulegri heldur en áfangastaðurinn.
Það má ekki vanmeta drauma af því draumar eru partur af tilveru okkar. Draumar kveikja lítinn neista sem stundum verður að báli, án drauma gerist ekkert markvert. Það er óraunhæft að ætla að allar okkar óskir munu rætast en líf okkar verður afskaplega leiðinlegt og tilbreytingarlaust án drauma.
Hvort sem draumar okkar snúast um að eignast lúxusvörur, skrifa bók, fara í langt ferðalag, finna sálufélagann eða njóta velgengni í starfi þá eru þeir mikilvægir og við eigum að leyfa okkur að dreyma. Draumar eru lúxus sem enginn getur tekið frá okkur eða látið okkur borga fyrir.
Ég nýt þess lúxus að geta sest niður á kaffihúsi með latte í glasi og flett tískublöðum sem ég þarf ekki einu sinni að borga fyrir og skoða þar fallega hluti sem mig vantar ekki en þætti kannski gaman að eignast eitthvað af einhvern tíma, það er nóg fyrir mig 😉
Vala vinnur hjá 66 Norður, er menntaður innkaupastjóri og faglegur ráðgjafi hönnuða í öllu sem snýr að viðskiptum og markaðssetningu. Hún er krabbi, fædd árið 1979 og montin mamma tveggja stráka. Býr í 101.