Karlar í prjónafötum? Hvað með að fá þá tísku til baka? Fyrir um 30 til 40 árum greip ákveðin prjónasturlun um sig hjá íslenskum konum. Þær prjónuðu sem óðar væru…
…Það var ekki bara prjónað á allt sem hreyfðist heldur var líka prjónað utan um klósettrúllur og klósettsetur.
Þetta var og verður eflaust í fyrsta og síðasta sinn sem klósettrúllur fóru í interior tísku. Skreyttar klósettrúllur (wtf?). Ég vona að minnsta kosti að þetta fari ekki í gang aftur.
Á eftirfarandi myndum má sjá mjög sérstök dæmi um prjónatískuna á árunum 1970-1980 sirka.
Hér erum við með Hugmyndir fyrir herrana og maður furðar sig á því að lífið hafi almennt fúnkerað meðan fólk klæddi sig í svona flíkur.
Gátu menn bara mætt svona í vinnu eða skóla? Nú eða á deit?
Sumt af þessu er svo furðulegt að maður gæti haldið að flíkurnar hafi verið gerðar af fólki á sveppum. Nei ég meina… Sjáðu bara myndirnar.
1. Skíðagrímur fyrir kaldar kinnar
Hipster sem er raðmorðingi eða bara einhver sem ætlar svoleiðis gersamlega að toppa alla hina í spesi er það sem kemur upp í hugann. Ekki einhver dagfarsprúður unglingur sem á næs ömmu sem elskar að prjóna. Alls ekki. Það er hreinlega ekkert praktískt eða sniðugt við þessar “skíðagrímur” og peysur í stíl. Þetta er bara ógnvekjandi.
2. Sundpeysa
Já, hvaaaðððð? Hefur enginn heyrt um sundpeysu áður? Magnað líka hvað karlfyrirsætur voru mjóar hér áður. Það er eins og þeir séu allir 60 kg. Kannski höfða mjóir menn bara meira til hannyrðakvenna. Maður þarf jú minna garn á mjóan karl.
3. Prjónabræður
Ef þessir þrír myndu banka upp á og bjóða í partý, bíó eða á ylströndina í blak, – þá myndi maður gersamlega reykspóla af stað með þeim. Svona týpur bjóða bara upp á gott gigg. Reyndar var mér eitt sinn sagt að treysta aldrei karlmanni í gulu, hvað þá appelsínugulu… en maður hlustar auðvitað ekkert á svoleiðis. Sjáðu t.d. hvað þessir standandi eru léttklæddir. Það þarf auðvitað ekki fleiri flíkur þegar maður á svona fín prjónaföt.
4. Hæ!
Grafalvarlegur maður í kaðlaprjónspeysu með hænu í hönd. Það er bara ekkert hægt að segja um þennan mann. He speaks for himself.
5. Beltið
Hér eru það fylgihlutirnir sem gera gæfumuninn. Klúturinn og beltið. Brosið er auðvitað mjög gott líka. Pínu eins og hann sé með slæma gyllinæð en samt að reyna að vera hress. Það er auðvitað viðhorfið sem skiptir máli.
6. Ef ég sé með hattinn
Hvað er betra en að eiga röndóttan hatt og peysu í stíl? Ekkert.
7. Skapandi skíðagrímur
Þarna erum við aftur með þessar grímur. Hvað var fólk í alvöru að hugsa? Til hvers að gera prjónauppskrift að svona ófögnuði? Þetta hræðir bara alla. Sumar með hár og allt.
8. Heilsuvestið
Hér erum við með heklaða brók og bol í stíl. Hugtakið “netabolur” (já það er hugtak) nær nýjum hæðum hérna en hönnuðurinn kallar þetta Heilsuvesti. Við erum að tala um vel girtan bol ofan í brækur sem “anda” ekkert smá vel. Guði sé lof fyrir þessa dulu þarna framan á. Og hvað með þessa pósu? Á hvað er hann að hlusta? Kannski er einhver að lesa prjónauppskrift fyrir hann… eða hekl?
9. Herra kósý
Heklaður heilgalli með risa teppi að neðan, eða bara svona risa, risastór sloppur. Kósý í bústaðinn. Tjilla með kakó, glansandi í framan með raðmorðingjasvip. Hver laðast ekki að svona hlýrri týpu?
10. Jóðlarinn
Og hér aftur, svona líka fínn hattur og vesti í stíl. Það gæti hver sem er sigrað forsetakosningar í svona múnderingu. Hvað með að bjóðast til að prjóna á einn frambjóðanda? Til dæmis Ástþór?
11. Karlar í peysum með belti
Ef tímaritið MEN in belted sweaters kæmi enn út þá væri ég áskrifandi nr. 1. Þetta er bara eitthvað svo kasjúal og skemmtilegt. Maður sem klæðir sig svona er sjálfsöruggur maður. Maður sem efast ekkert um karlmennsku sína. Maður sem kann að njóta og lifa.
12. Léttir í lit
Gætu menn með svona hár og í svona ponsjó unnið í banka í dag? Bara mætt í vinnuna, fjárfest á fullu og reiknað með því að maður myndi treysta þeim… Myndi maður? Ég veit það ekki…
13. Bestir í vestum
Að lokum. Hér eru tveir huggulegir saman í flottum vestum. Faðir og sonur. Klúturinn á sínum stað. Bringing sexy back. Og þetta lúmska bros á karlinum. Hann hlýtur að vera að hugsa um prjónaheilgallann og skíðahettuna sem hann ætlar að prjóna sér næst. Eða hvað hann ætlar sér að gera í með skíðahettuna á hausnum, klæddur í prjónaheilgallann. Mig langar ekki að vita það.
Góðar stundir
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.