Ég keypti mér nýjan kjól fyrir stuttu, flottur, þröngur, grár kjóll. Ég er í skýjunum með kaupin þótt ég eigi .. bíddu, einn, tvo … sex kjóla fyrir og vanti, þannig séð, ekki nýjan.
…hann var bara svo fallegur að ég stóðst ekki mátið.
Stundum hef ég séð konur neita sér um falleg föt í búðum af því að þær bráðvantar þau ekki. Hafa etv. ekki tilefni til að nota flíkina eða hreinlega ekki ráð á henni. Það er alltaf leitt. Sérstaklega af því að allt það sem er nýtt og fallegt hefur einhvern töframátt.
Kona sem er hamingjusöm með nýja kjólinn sinn geislar og dregur enn frekar til sín athygli, tel ég.
Þegar ég talaði um þetta við góða vinkonu mína sagði hún mér að heimurinn launaði okkur margfalt það sem við splæstum í okkur sjálf. Ég var ofsahrifin af þessari speki, er næsta vís með að láta letra þetta á legsteininn minn: Hún var grand og fékk grand trít!
Spáðu í þetta aðeins.. Hversu oft hefurðu ekki keypt þér fallega flík og verið boðin eitthvert skemmtilegt strax á eftir, í matarboð, partí eða bara í bíó og hefur þá um leið getað skartað þessu nýja? Ég fullyrði að þetta góða bragð virkar í hvert sinn og það er gaman að pæla í þessu lögmáli.
Til að renna stoðum undir þetta má ég til með að segja ykkur frá vini mínum, hann passar sig að spandera reglulega í sjálfan sig, konuna og börnin því það kemur alltaf margfalt tilbaka.
„Stundum tek ég fimmtíuþúsund í seðlum og fer í Kringluna til að kaupa eitthvað fallegt á þau,“ sagði hann mér eitt sinn.
Þar sem við unnum saman hafði hann lúmskt gaman af því að segja mér að hann ætti örugglega tvö hundruð sokka í öllum regnbogans litum og 150 bindi, bara af því að honum fannst þetta fallegt og hann vildi vera góður við sig. Ég gapti oft í forundran en skil hann svo vel þegar ég hugsa um þetta betur.
Já, enda kemur alltaf allt sem við gerum tilbaka í sama formi, gott og slæmt eða svo vildi hann að minnsta kosti meina. Þessi maður er líka alltaf flottur, klæðist fallegum fötum sem eru þó ekki endilega dýr heldur bara beinsmart. Það sama má segja um börnin og konuna hans.
Hver vill ekki þekkja svona einstakling, ég bara spyr?
Guðrún Gunnarsdóttir er menntuð í viðskiptafræði en hefur lengst af starfað í tískubransanum. Nú rekur hún heildsölu ásamt eiginmanni sínum. Hún er sérlegur unnandi Parísarborgar en þangað fer hún nokkrum sinnum á hverju ári. Guðrún er hrútur, fædd 1976.