Helgi Ómarsson hefur látið að sér kveða í tískuheiminum og getið sér góðan orðstír bæði sem ljósmyndari, fyrirsæta og förðunarfræðingur. Hann hefur unnið í samstarfi við Eskimo Models og starfar einnig hjá MOOD Make Up School.
Hvað kom til að þú gerðist ljósmyndari?
Það gerðist tiltölulega óvart. Það var alltaf áhugi til staðar þegar ég var yngri. Ég var mikið með einnota myndavélar og myndaði yfirleitt bara fólk. Þegar ég var 15 ára fékk ég almennilega myndavél í hendurnar – ókei, pabbi átti hana, en ég eignaði mér hana. Þá fór ég út í svona ‘ self portraits ‘ og sem þróaðist fljótt út í það að mynda annað fólk. Ég held mér hafi tekist að læra eitthvað nýtt daglega á þessum tíma- og er í enn að gera í dag. Ég get ekki hætt, svo ég átti í rauninni aldrei moment sem ég ákvað að verða ljósmyndari, það gerðist bara. Mér finnst þetta svo æðislegt.
Hvað finnst þér skemmtilegast að mynda?
Fólk. Hvort sem það er tíska eða almenn andartök sem hægt er að fanga. Ég er aðallega í tísku og myndi segja að það væri minn heimavöllur en mér þykir fátt skemmtilegra en að grafa upp myndir, bæði gamlar, nýjar og allskonar sem veitir mér innblástur. Einnig er New York ferðin sem ég fór í sumar mér mjög minnisstæð, það er ótrúlegt að taka myndir á þeim stað. Það kveikti einnig áhugann að því að fara til Asíu og Afríku og mynda þar. Ég er að vinníðí 🙂
Hvaða ljósmyndari hefur haft mest áhrif á þig?
Ragnar Axelsson kemur fyrst upp í hugann, hann er náskyldur mér og það hafa alltaf hangið myndir eftir hann á heimili mínu frá því ég man eftir mér. Myndir sem ég spáði mikið í. Einhverntíman ætlaði ég að vera eins og hann, það tókst næstum því en ég fór í aðeins öðruvísi átt. En mér finnst hann stórkostlegur, sem persóna og listamaður. Einnig Saga Sig, hún hefur gefið mér góð ráð hvað varðar ljósmyndun og bransann, ráð sem höfðu jú ekkert nema góð áhrif á mig.
Áttu þér eftirlætis ljósmynd?
Ég er tvíburi – tvíburar eiga það til að skipta um skoðanir eins og nærbuxur, ég er rosalega mikið svoleiðis. Annars er til ótrúlega mikið af fallegum myndum, með flottum klæðnaði eða rosalegri förðun en þessi mynd eftir Horst Faas sem var tekin í Suður Víetnam árið 1965 heillar mig ótrúlega mikið og er held ég ein af mínum uppáhalds myndum. Myndir með sögu eða meiningu heilla mig töluvert meira en glamúrmyndir.
Lifir þú á því að mynda?
Já, mér hefur tekist að gera það síðustu mánuði. Ég stóð á krossgötum í lok síðasta árs þar sem ég þurfti að taka ákvörðun um hvort ég ætti að halda áfram í þeirri vinnu sem ég var í, eða sinna þeim ljósmyndaverkefnum sem komu að mér og áttu hug minn allan. Þetta hefur mér tekist hingað til og get ekki neitað því að ég er nokkuð sáttur – og pínu stoltur. En ég fæ þó tekjur frá starfi mínu sem förðunarfræðingur og í gegnum önnur verkefni líka. Þetta er rosalega gaman og ég er gríðarlega sáttur. No more NINE TO FIIIIIVE – í bili allavega.
Hvað finnst þér um ljósmyndaforrit eins og Instagram?
Mjög fyndin spurning, því ég elska fátt meira en Instagram. Ég er reyndar nýkominn inní þetta en ég hef samt hingað til sett inn rúmlega 150 myndir. Mér finnst eitthvað heillandi við að skrásetja líf sitt og mér þykir bara skemmtilegt að deila því með öðrum. Þetta er líka frábær leið fyrir þá sem eru að gera eitthvað skemmtilegt, flott, eða kreatíft að leyfa þá bara myndunum að tala. Annars þykir mér aðallega skemmtilegt að skella myndum af matnum mínum á Instagram.
Ég trúi á Karma, mér þykir ótrúlega gott að reyna byggja upp gott karma og forðast það neikvæða svo það komi ekki í bakið á mér.
Notarðu stundum gömlu aðferðina, myrkraherbergi, filmur?
Ég hef ekki gert það nei en ég hef verið að prófa mig áfram í filmu, mér finnst það ótrúlega gaman. Í rauninni kann ég ekki á það nema setja filmuna í vélina og smella svo af. Ég hef aldrei fundið tíma til að fá einhverja almennilega kennslu í svona. Ég er búinn að vera í dauðaleit að einföldum og skemmtilegum filmuvélum en hef enga fundið enn. Mér finnst það mjög heillandi og ætla mér að læra á allt þetta í framtíðinni og hlakka rosa til þess. Þá sérstaklega t.d. myrkraherbergi.
Hvaða lífsreglum lifirðu eftir?
Ég trúi á Karma, mér þykir ótrúlega gott að reyna byggja upp gott karma og forðast það neikvæða svo það komi ekki í bakið á mér. Ég var alinn upp við fordómaleysi og því að passa sig að vera kurteis öllum stundum, auðvitað ásamt öðrum lífsreglum. Ég tek mér pabba 110% mér til fyrirmyndar, enda kurteisasti og ljúfasti maður sem ég veit um. Mér finnst það rosalega góð tilfinning að einbeita mér að því að vera kurteis við allt og alla, það er bæði gerir helling fyrir daginn minn og vonandi annarra.
Draumaverkefnið?
Ég hef lært rosalega mikið á bransann síðustu ár – og mánuði sérstaklega. Og ef það er eitthvað sem ég hef sett í forgang þegar ég er að vinna þá er það að vinna í góðu umhverfi með góðu fólki. Það væri frábært að taka myndir fyrir blöð eins og i-D, Dazed & Confused, W eða taka herferð fyrir All Saints, Topman eða einhver af stóru tískuhúsunum úti. Það væri auðvitað algjör draumur. Ég veit þó að ég myndi ekki njóta þess nema um væri að ræða gott vinnuumhverfi. En núna eru bara báðir fætur á jörðinni og eitt skref í einu!
Gunnhildur Birna Gunnarsdóttir er förðunarfræðingur og útskrifaðist með hæstu einkunn úr MOOD Make Up School með áherslu á tísku- sjónvarps- og ljósmyndaförðun og tók Airbrush námskeið í sama skóla. Hún er sjálfstætt starfandi og tekur að sér hin ýmsu verkefni, allt frá einstaklings- og brúðarförðunum upp í tímarit og auglýsingar. Einnig vinnur hún fyrir Bobbi Brown á Íslandi sem sölustjóri.
— Vantar þig förðun og/eða persónulega förðunarráðgjöf? Hafðu samband á gunnhildur@gb-makeup.com