Liv Elísabet Friðriksdóttir fyrirsæta er meðal annars þekkt fyrir eldrauða, síða hárið sem hún ber og einstakt útlit.
Hún er á skrá hjá Elite á Íslandi og hefur setið fyrir hjá betri ljósmyndurum landsins fyrir ýmis verkefni, til dæmis fyrir sumarlínu Kron by KronKron. Liv svaraði nokkrum spurningum um módelstarfið.
Hvað kom til að þú gerðist fyrirsæta?
Anna Ósk ljósmyndari fann mig á Facebook og bað mig um að koma í myndartöku. Eftir að hún setti myndirnar á netið höfðu fleiri ljósmyndarar samband og þetta fór allt af stað.
Hvernig verkefnum hefurðu mest gaman af?
Mér finnst erfitt að gera upp á milli en það er alltaf gaman að vinna með upprennandi hönnuðum.
_________________________________________________________________
Hvaða fyrirmynd hefur haft mest áhrif á þig?
Cintia Dicker. Hún var send heim af tískuviku fyrir að vera “of feit” en í stað þess að hætta að borða eins og margar stelpur myndu gera hélt hún sínu og striki, hætti í hátísku og fór að vinna við auglýsingatengdari verkefni. Það er einmitt þannig sem ég vil líta á þetta: Þetta er gaman svo lengi sem maður er ekki að taka þetta of alvarlega eða að fórna heilsunni.
Hver er þinn uppáhalds ljósmyndari?
Saga Sig er algjör snillingur. Svo eru Íris Björk og Anna Ósk líka mjög klárar.
Áttu þér uppáhalds verkefni sem þú hefur tekið þátt í?
Ég sat fyrir sumarlínu Kron by Kronkron fyrir nokkrum mánuðum og það var æðislegt. Fötin voru geðveik og myndirnar sem Saga Sig tók komu rosa vel út. Svo var ótrúlega gaman að sitja fyrir hjá Sissu sem var með áhrifaríka og fallega sýningu um meðvirkni í Kex Hostel á seinasta ári.
Lifir þú á fyrirsætustörfunum?
Nei ég er alls ekki að fá mikinn pening út úr þessu enda er ég ekki að þessu til að græða. Ég geri þetta bara til gamans með skóla.
Hvað finnst þér um myndvinnsluforrit eins og Photoshop í tískubransanum?
Mér finnst það í lagi upp að vissu marki til dæmis til að breyta litunum á mynd eða til að laga eitthvað smávegis eins og kannski ör en finnst einum of langt gengið þegar manneskjan verður næstum óþekkjanleg.
Hvað gerirðu til að hugsa um útlitið?
Hreyfi mig tvisvar í viku og reyni að hafa gaman af því. Fór í ræktina í fyrsta sinn núna í ár og er ekki alveg búin að ákveða hvort það sé eitthvað fyrir mig. Það er eitthvað skrítið við að keyra í ræktina til að fara að hlaupa á einhverju bretti. Held ég fari frekar bara út að hjóla þegar kortið rennur út. Annars bara borða hollan mat og taka lýsi.
Draumaverkefnið?
Herferð fyrir TopShop.
Það er greinilegt að Liv Elísabet á framtíðina fyrir sér sem módel, hafið augun opin fyrir þessari stórglæsilegu stúlku!
Gunnhildur Birna Gunnarsdóttir er förðunarfræðingur og útskrifaðist með hæstu einkunn úr MOOD Make Up School með áherslu á tísku- sjónvarps- og ljósmyndaförðun og tók Airbrush námskeið í sama skóla. Hún er sjálfstætt starfandi og tekur að sér hin ýmsu verkefni, allt frá einstaklings- og brúðarförðunum upp í tímarit og auglýsingar. Einnig vinnur hún fyrir Bobbi Brown á Íslandi sem sölustjóri.
— Vantar þig förðun og/eða persónulega förðunarráðgjöf? Hafðu samband á gunnhildur@gb-makeup.com