Ó, litli kraftmikli, forvitni hrútur. Þú ert svo sannarlega opinn og gefandi enda byrjarðu snemma að bæði ganga og tala, ert óhræddur, hefur sterkar skoðanir og ert tilbúinn til að þræta án afláts. “Það er sko enginn að fara að segja mér hvenær ég á að fara að sofa, ég ákveð það sjálfur!” Ég dustaði af gamalli bók sem ég fékk eitt sinn í afmælisgjöf frá móður minni en þar segir:
“Það virkar líklega ekki að segja einfandlega nei við barn í hrútsmerkinu. Hrútarnir vilja gera hlutina á sinn hátt og þeir sýna svokölluðum englabörnum megna fyrirlitningu.”
Litlir hrútar eiga það til að stjórna öðrum börnum og þar sem þeir byrja snemma að ganga og tala þá get ég vel séð fyrir mér lítinn hrút sem formann verkalýðsfélags á leikvellinum.
“Við látum ekki bjóða okkur upp á ársgamlar skóflur!”
Þar sem litli hrúturinn hræðist gott sem ekkert hættir honum til þess að verða fyrir óhöppum, brjóta jafnvel bein og ef svo ólíklega vill til að hann veikist þá er hann mjög fljótur að jafna sig, það bítur fátt á hrúta almennt.
Þó að litlir hrútar geti verið stjórnsamir þýðir alls ekki að þeir séu leiðinlegir. Heldur betur ekki, því þeir eru mjög opnir og gefandi. Hafa skoðanir og eru virkilega forvitnir. Þá sækjast þeir stöðugt eftir athygli en ungir hrútar þurfa að fá tækifæri til að sýna hversu klárir og hugrakkir þeir eru.
Þeir eru keppnismanneskjur og líkast til hafa þeir gaman af leikjum þar sem einhvern einn er ótvíræður sigurvegari. Þeim leiðast leikir þar sem allir eru jafnir og eiga að hjálpast að. Þessi tilhneiging getur komið af stað illindum í leik við aðra krakka, svo foreldrar verða að vera tilbúin til að hughreysta litla hrútinn – þó að hann vilji sjaldnast viðurkenna að hann þurfi á því að halda.
Gefðu honum spennandi verkefni
Sniðugasta leiðin til þess að fá lítinn hrút til þess að gera það sem maður vill, er að búa til spennandi verkefni.
Best er t.d. að segja við við hann að það sér ómögulegt að hann nái að tína saman öll leikföngin á innan við fimm mínútum – og draga sig í hlé þegar hann ræðst á hrúguna
Það er ekki bara gaman að kynna sér stjörnuspekina, eina elstu fræðigrein heims sem er yfir 5 þúsund ára gömul, heldur er það mjög gagnlegt. En til að nýta sér þessi vísindi þarf að kynna sér þau. Til dæmis má ekki einblína bara á sitt sólarmerki, það merki sem að sólin var í þegar þú fæddist. Ég er með sól í fiski (fædd 5. mars) en er rísandi bogmaður – gjörólík merki, vatn og eldur.
Það geta oft verið svolitlar andstæður í þessu en þegar við fjöllum um merkið sem þú ert í þá er miðað við sólarmerkið sem er kjarni/grunneðli manneskjunnar og það sem stjórnar henni hvað sterkast.
(Heimild: Need to know? Zodiac Types. e. Jamie Stokes)
Viltu vita meira um hrútinn …
https://pjatt.is/2015/03/29/hruturinn-fljotfaer-keppnismanneskja-sem-horfir-fram-a-veginn/
Fanney hefur skrifað á Pjattið frá 2012. Hún skrifar mest um andlegu hliðina og lífsstílstengd mál. Fanney er viðskiptafræðingur og starfar sem slíkur hjá Markhóli markþjálfun. Hún býr í 105 Rvk ásamt sambýlismanni sínum Óskari Arnarsyni. Fanney er með sól í fiskum en er rísandi bogmaður.