Ég á sex ára pjattrófu sem hefur alla tíð haft gríðarlega miklar skoðanir á því hverju hún klæðist.
…Ef þú átt litla pjattrófu þá veistu alveg um hvað ég er að tala. Alveg frá því hún var þriggja ára fór hún að neita því að klæðast hinu og þessu en tók svo ástfóstri við sumar flíkur sem voru mikið “fashion fail” í mínum huga.
Ég leyfi henni þó oft að ráða ferðinni enda er þetta eins og Sailor (Nicolas Cage) í myndinni Wild at Heart sagði: “This is a snakeskin jacket! And for me it’s a symbol of my individuality, and my belief… in personal freedom.” Með klæðnaðinum erum við að tjá hver við erum.
Fyrir vikið fór sú stutta stundum svolítið “skapandi” í klæðaburði í leikskólann en það er allt í lagi. Við erum bara prinsessur í mjög stuttan tíma, í mesta lagi til fimm ára.
Ég er á þeirri skoðun að börn eigi að fá að njóta sín, vera þau sem þau eru, með svart naglalakk, flottann hatt… svo lengi sem það sýnir ekki öðrum vanvirðingu. Á sama tíma þarf að passa að þau verði ekki fyrir neinu aðkasti fyrir að skera sig úr. Þetta er auðvitað svolítið vandratað.
Hér eru nokkur skemmtileg heilræði fyrir foreldra pjattrófa af báðum kynjum… stundum eru strákarnir ekkert síður pjattaðir:
- Leyfðu barninu að ráða ferðinni þegar þið farið að kaupa föt. Spurðu hvað hann/hún fílar við furðulegan pólóbol eða röndóttu skyrtuna; það gæti komið þér á óvart hvað er að gerast í sálarlífi litla snillingsins.
- Ekki hlægja að unglingnum eða barninu þegar það er búið að dressa sig upp í eitthvað sem því finnst ótrúlega töff. Með því geturðu dregið úr hugrekkinu og þar með lokað á að barnið finni sinn persónulega stíl í framtíðinni. Hvort sem er í fatnaði eða öðru.
- Leyfðu þeim að strolla um í búðinni og velja á sig föt sem kosta eitthvað innan rammans. Þetta hjálpar þeim að læra að kaupa sér föt og annað innan þess sem fjárhagurinn segir til um.
- Fáðu ráð frá barninu þegar þú ert að klæða þig upp. (Mín litla sex ára hikar ekki við að hrósa mér í hástert þegar henni finnst ég æðislega fín og oft leyfi ég henni að hjálpa mér að velja skart og annað við dressið. Þetta lætur henni líða eins og mikilvægri manneskju og hjálpar henni að finna út hvað fer vel saman.)
- Þú þarft alltaf að gefa ástæðu fyrir því af hverju maður á ekki að klæðast hinu eða þessu. Stundum þurfa frjálslyndustu foreldrar að slá í borðið og banna barninu að fara út á stuttbuxum í september eða í hjallastefnugallanum í brúðkaup. Ekki segja nei bara af því þér finnst barnið skrítið eða furðulegt. Segðu nei af því það er ástæða fyrir því. Útskýrðu að með því að klæða sig með ákveðnum hætti er verið að sýna virðingu – eða að manni verði einfaldlega of heitt eða kalt í röngum klæðnaði.
- Hrósaðu barninu þegar það klæðir sig í takt við eigin karakter: “Þetta er ekta þú”… Taktu eftir því og hrósaðu.
- Talaðu við barnið ef annar krakki tekur upp á því að gera grín að klæðaburði þess. Börn vilja oft öll steypa sig í sama mótið og stundum getur þú alveg klikkað, bara af því bolurinn er ekki í “rétta” litnum. Spurðu fyrst hvort hún/hann fíli það sem allir hinir krakkarnir í skólanum eru að fíla og svo af hverju. Ef barninu langar að blandast hópnum þá er það líka í lagi. Börn eru misjöfn í þessu sem öðru. Ekki þvinga barnið til neins, lærðu bara að finna gott jafnvægi og leyfðu litlu manneskjunni að blómstra sem hún sjálf.
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.