Um daginn stóð ég mig að því að söngla lagstúf sem ég taldi vera á vegum stórstjörnunnar Beyonce.
Stúlka sú stígur sjaldan feilspor og því var ég handviss um að hún væri á bakvið lagið. Þegar ég fór að leita að laginu á netinu komst ég að því að það var ekki Queen B sem söng lagið heldur litla systir hennar, Solange!
Ég er opinber Beyonce-aðdáandi, eins og fjöldamargir aðrir. Eftir að hafa fylgst með vinum og vandamönnum fara á tónleika með Beyonce í vor er óhætt að segja að myndast hafi hálfgerður sértrúarsöfnuður í kringum þessa hæfileikaríku konu.
Beyonce er vissulega margt til lista lagt en ég er ekki alltaf á sömu blaðsíðu og hún í tískunni. Eðlilega styðst hún við aðstoð stílista og fagfólks en þá vill það oft gerast að manneskjan tapar sínum stíl því útlitið er ákveðið fyrirfram af faglærðu stílistateymi.
Solange er hinsvegar með mjög afmarkað útlit og þorir að víkka út mörkin á tískutrendum. Eftir að hafa leitað að myndum af Solange á Google og Pinterest er ég kolfallin fyrir henni og stílnum hennar. Sterkir litir, stór og áberandi mynstur, afró, fléttur, snöggklippt -Solange púllar öll ,,lúkk” sem aðrir yrðu líklegast handteknir af tískulöggunni fyrir að sporta.
Auk þess hefur þessi flotta kona fengið tónlistarhæfileika í vöggugjöf, líkt og systir hennar, og verð ég að segja að lögin hennar eru ekkert síðri. Kannski aðeins óhefðbundnari og öðruvísi en tónlistin sem Beyonce semur en að sama skapi góð afþreying.
Hér eru nokkur vel valin útlit sem Solange hefur skartað, auk myndbands við lagið Losing you.
Myndbandið er tekið upp í Suður-Afríku, á svæðinu Langa í Höfðaborg, þar sem fólk virðist búa við kröpp kjör en stíllinn á þeim er langt frá því að vera fátæklegur.
Tvímælalaust eitt af mínum uppáhalds myndböndum!
[youtube]http://www.youtube.com/watch?v=Hy9W_mrY_Vk[/youtube]
Anna Margrét er fædd í Reykjavík árið 1987, en hefur alið manninn í Svíþjóð, Suður Ameríku og víðar.
Anna er krabbi, og þykja þeir hinir kátustu. Tíska, förðun, jafnrétti, skrif og ferðalög um Afríku eru nokkur af hennar áhugamálum.