Mér finnst alltaf meira gaman að kaupa matvöru sem er frá litlu fyrirtæki frekar en þeim stóru.
Ég vil jú styðja kaupmanninn á horninu eins og ég fjallaði áður um í þessari grein.
Einnig legg ég mikið upp úr því að kaupa vörur sem ég veit hvaðan koma enda vil ég helst forðast öll aukaefni, og kaupa semsagt – hreinar vörur.
Ég veit til dæmis fátt meira pirrandi en að kaupa kjúklingaálegg vitandi að ég er í raun að borga fyrir 60% kjúklingakjöt en restin er sykur, vatn ofl sem mig langar kannski ekkert að borga fyrir.
Og þá kom Litla Gula Hænan
Ég var að gramsa í frystinum í Nettó um daginn þegar ég rak augun í risastóran kjúkling. Ég hélt fyrst að þetta væri kalkúnn en svo var ekki. Þarna var um að ræða kjúkling frá hænsnabúinu Litla Gula Hænan. Búið leggur áherslur á velferð kjúklinganna, gæði kjötsins og sjálfbærni í búskap.
Það sem er skemmtilegt og öðruvísi við þetta kjúklingabú er að kjúklingarnir fá mikið pláss og ferskt loft. Inni eru stórir gluggar og þegar veður leyfir fara þeir út að viðra sig. Einnig er mikið lagt uppúr hreinlæti í búinu. Hversu frábært!
Á hreinu og góðu fóðri, bygg og grænmeti
Fóðrið er óerfðabreytt og kjúklingarnir fá einnig heilt bygg og heimaræktað grænmeti. Ásamt þessu eru engin aukaefni notuð í framleiðsluna og kjötið er ekki sprautað. Ég mæli eindregið með að þú prófir en hér er listi yfir verslanir sem selja kjúkling frá Litlu Gulu Hænunni. Einnig er hægt að mæta á staðinn og kaupa en þó þarf að gefa fyrirvara á heimsókn 😉
Hér er stutt myndband um Litlu Gulu Hænuna sem ég fann á heimasíðu þeirra en þarna færðu fróðleikinn beint í æð. Mikilvægt fyrir okkur sem látum þessi mál okkur miklu varða.
ps. Að gefnu tilefni, af því sumir eru svo stressaðir eitthvað yfir plöggi þessa dagana, tek ég sérstaklega fram að það kom enginn og gaf mér svona kjúlla gegn umfjöllun. Engar kjúllamútur eða neitt svoleiðis.
Mér finnst þetta bara frábær vara og í anda þessa Pjattsins vil ég deila upplýsingunum með lesendum okkar 💜🐣🐔… svo er bara spurning hvort þú verðir hrifin eins og ég… Gott í maga og gott fyrir samviskuna.
Krabbastelpan Eva Rós er fædd árið 1989, á tvö börn og góðan mann. Eva er mikill áhugamaður um hverskyns gamanmál en einnig uppeldi, ferðalög, heilsu, líkamsrækt, vín, matreiðslu, veisluhöld, kokteilagerð og góða þjónustu. Mottó Evu í lífinu er einfalt: Hver er sinnar gæfu smiður