Haustið er skemmtilegasta árstiðin í tísku að mínu mati. Þá ríkir gjarna litagleði sem lífgar uppá skammdegið okkar hér á Fróni.
Litirnir í förðun hafa ekki breyst mikið frá því í fyrra en ennþá eru metal litir á augu og neglur í tísku og sterkir varalitir eins og vínrauður, eldrauður og skærbleikur.
Augnförðunin á tískupöllunum var djarfari en oft áður og augnskuggin er búinn að færast nánast alveg upp að augabrúnum. Metal litir gera mikið fyrir augun, þau virðast stærri og seiðandi. Skærir augnskuggar í bláu og rauðu eru skemmtilegir og poppaðir, tilvaldir til að nota sem mótvægi á móti dökkum klæðnaði.
Sterkir og dökkir varalitir eru að verða enn vinsælli en í fyrra en það er regla númer eitt að vera með létta augnförðun við slíkan varalit til að verða ekki eins og trúður.
Litirnir í naglalökkum eru allt frá metal litum í silfri og brons til eldrauðra, appelsínugulra og vínrauðra nagla. Naglalökk eru einmitt guðs gjöf fyrir konur sem eiga erfitt með að halda löngum nöglum við því sterkir naglalitir líta betur út á stuttum nöglum en löngum, að lakka langar neglur í dökkum lit getur orðið soldið “nornalegt”.
Létt meik eða litað dagkrem er málið í vetur, það á að leyfa þínum eðlilega húðlit að njóta sín og ekki þekja um of, föl og freknótt húð er falleg og hana á ekki að fela.
Ekki er of oft hægt að minna á að nú þegar kólnar þarfnast húðin mikils raka og þarf maður að nota góð rakagefandi krem og rakamaska til að verja húðina gegn þurrki og kulda.
Vogue var að vanda með góða umfjöllun um haustlitina og ég valdi nokkrar myndir frá þeim:
Vala vinnur hjá 66 Norður, er menntaður innkaupastjóri og faglegur ráðgjafi hönnuða í öllu sem snýr að viðskiptum og markaðssetningu. Hún er krabbi, fædd árið 1979 og montin mamma tveggja stráka. Býr í 101.