Lína Rut Wilberg er komin til Íslands til að taka þátt í Ljósanótt í Reykjanesbæ dagana 1-4 september. Þar mun hún hafa opna vinnustofu og kynna nýtt verkefni, Happy-Face.
Lína Rut er fædd á Ísafirði 1966. Hún útskrifaðist úr Myndlistar og Handíðaskóla Íslands 1994, lærði listförðun í París og tók námskeið í pappaskúlptur á Ítalíu.
Á sínum yngri árum átti hún vel heppnaðan fyrirsætuferil en fyrirsætustörfin heilluðu hinsvegar ekki Línu Rut og eftir nám í listförðun í París kom hún til íslands og starfrækti hún förðunarskóla, þann fyrsta sinnar tegundar ásamt því að farða “free lance” m.a fyrir Samútgáfuna. Síðan snéri hún sér alfarið að myndlistinni enda ástríðufullur listamaður.
Lína Rut hefur málað og unnið að skúlptúrum sem hafa notið mikilla vinsælda, hún hefur tekið þátt í samsýningum og verið með einkasýningar sem hlotið hafa góðar viðtökur.
Um helgina verður haldin Ljósanótt í Reykjanesbæ og einn forvitnilegasti viðburðurinn er „Klikkaður Kærleikur“ í Víkingaheimum annað kvöld, föstudagskvöldið 2. sept kl 21.00.
Þar verður tískusýning og tónleikar, öðruvísi sýning þar sem telft verður saman tónlist, leiklist, myndlist og hönnun. Afrakstur kvöldsins rennur í styrktarsjóð fyrir fötluð og veik börn á Suðurnesjunum. Það er Spíral hönnun sem hefur hrint þessu verkefni í framkvæmd og fengu þær lánaða Happy Face fígúruna til að nota á boli sem seldir verða á Ljósanótt.
HLUTVERK OG TILGANGUR HAPPY-FACE ?
Hver er Happy Face?
Mig langaði að búa til fígúru sem gæti glatt augað og vakið eftirtekt. Bros fígúrunnar gæti minnt okkur á glöðu andlit barnanna og foreldra þeirra sem hafa notið góðs af Happy Face verkefninu.
Hlutverk Happy-face er að gleðja, koma brosi á vör þeirra sem sjá og umgangast Happy-face og að Happy-face vörurnar nái að safna fjármunum til styrktar fötluðum, langveikum börnum og foreldrum þeirra á Íslandi.
Ég mun kappkosta að hanna og framleiða fallegar og nýtanlegar vörur þannig að kaupandinn styrki gott málefni um leið og hann eignast fallega og eða skemmtilega vöru.
Ég vona að Happy-face eigi eftir að vaxa og dafna og eigi eftir að finna sér marga samstarfsaðila í framtíðinni. Ég hef einnig verið að vinna að verkefni fyrir Kraft, krabbameinssjúk börn þar sem ég mun nota Happy Face en það verkefni verður kynnt á haustmánuðunum og svo er ég að vinna að barnabók.
Barnafatalína Happy-Face. Einnig verður kynnt á Ljósanótt ný Happy-Face barnafatalína. Það er Hildur Sumarliðadóttir, nemi við Listaháskóla Íslands, sem hannar þá línu en hún starfar undir nafninu Mrs. SommeR. Línan er fyrst og fremst innblásin af fígúrum Línu Rutar í bland við retro rómantík.
Það er greinilegt að þessi hæfileikaríka kona situr ekki auðum höndum – því hvet ég þig til að kíkja á vinnustofuna hennar Línu Rutar í Reykjanesbæ, Baldursgötu 14 og styrkja góð málefni í leiðinni.
Lína Rut er einnig með Facebook síðu í kringum Happy Face og þar fást frekari upplýsingar.
Díana Bjarnadóttir útlitsráðgjafi og stílisti hefur margra ára reynslu við að aðstoða fólk með fataval. Hún starfaði meðal annars á Ítalíu og í London þar sem hún var stílisti stjarnanna hjá Giorgio Armani og Gucci.
Hefur einnig verið búsett í svíþjóð, Hollandi og á Selfossi en býr nú í Reykjavik. Díana er einnig með menntun í förðunarfræði. Greinar og ljósmyndir Díönu hafa m.a. verið birtar í tímaritunum Veggfóður, Ský og Smáralindarblaðinu. Díana er fædd 1. maí og er því naut.