Lilja Katrín Gunnarsdóttir, ritstýra Séð og heyrt, er flestum vel kunn m.a. eftir leik sinn í Makalaus þáttunum.
Færri vita þó að Lilja er háð Facebook bingói, á móður sem er spákona og finnst að prestar eigi að leysa sambandsvanda hjá fólki.
Áttu auðvelt með að sofna á kvöldin eða hugsarðu of mikið?
Nú myndi minn heittelskaði skella upp úr! Ég á mjög auðvelt með að sofna á kvöldin og yfirleitt sofna ég fyrir framan sjónvarpið fyrir seinni fréttir. Ég hugsa voðalega lítið og ég elska svefn!
Hefurðu séð draug, álf eða geimveru?
Nú er móðir mín spákona og því lögð extra mikil áhersla á allt yfirnáttúrulegt á mínu heimili sem ég er mjög þakklát fyrir. Ég hef séð draug en hvorki álf né geimveru. Ég ber virðingu fyrir öflunum sem umlykja okkur og elska þegar móðir mín gefur mér einkakennslustund í tarotlestri og bollaspádómi.
Þekkirðu óvenjulega marga einstaklinga í sama stjörnumerkinu og hvaða merki er það?
Í gegnum tíðina hef ég laðað að mér mikið af fólki í Vogar- og Meyjarmerkinu. Hins vegar er ekkert merki sem passar hundrað prósent við Meyjarmerkið, sem ég er í, þannig að það er frekar tilgangslaust fyrir mig að spá í stjörnumerkjum – það þolir mig hvort sem er enginn! Ég er stolt, erfið og smámunasöm Meyja.
Áttu uppáhalds hönnuð?
Ég leyfi mér helst ekki að skoða dýra hönnunarvöru þar sem ég hef einfaldlega ekki efni á henni. En mig dreymir um að eignast kjól frá Shadow Creatures og skó frá Irregular Choice.
Flottasta fyrirmyndin?
Lionel Messi – hógvær, jarðbundinn og fáránlega góður knattspyrnumaður! Kemur mér sífellt á óvart.
Uppáhals tímasóunin?
Á ég að segja frá því? Úff! Heyrðu, ég er forfallinn Bingó-sjúklingur og eyði oft heilu tímunum í Bingó á Facebook. Sorglegt, en satt.
Hvað er næsta tilhlökkunarefnið í lífi þínu?
Ég plana voðalega stutt fram í tímann en ég vona að ég nái að fara til Parísar í sumar. Það ræðst af því hvað fer ógeðslega mikill peningur í reikninga um næstu mánaðarmót. Og jú, hve illa skatturinn á eftir að taka mig í ra**inn.
Hvaða 5 hluti tækirðu með út í geim?
Mann, barn, þvaglegg, hvolp og apa.
Hvernig bíl langar þig í?
Tryllitækið sem ég sá í Top Gear en man ekki hvað heitir. Þegar þeir prófuðu að sprengja það í loft upp kom hola í jörðina en aðeins eitt dekk sprungið á bílnum. Það var nett.
Nefndu 5 uppáhalds bíómyndirnar þínar:
- Kill Bill 1 & 2 (tel þessar sem eina heild)
- Så Som i Himmelen
- Notebook
- Batman Returns
- Adams Æbler
Hefurðu verið ástfangin af poppstjörnu?
Þegar ég fermdist var herbergið mitt veggfóðrað af myndum af Take That. Fyrst elskaði ég Mark Owen, síðan slefaði ég yfir Robbie Williams, næstur í röðinni var Howard Donald og undir lokin var ég sjúklega ástfangin af Gary Barlow. Greyið Jason náði aldrei að heilla mig. Fyrir nokkrum árum rættist langþráður draumur þegar ég sá bandið á tónleikum í Köben – mínus Robbie. Ég skrækti eins og smástelpa og veifaði þeim í þrjá tíma í veikri von um að þeir myndu draga mig upp á svið og berjast um hylli mína.
Hvaða mistök gera pör helst í samböndunum sínum?
Er ekki best að leyfa prestunum að sjá um þessi mál?
Hvað er skemmtilegast við það sem þú ert að gera núna?
Dólgarnir sem ég vinn með.
En erfiðast?
Halda einbeitingunni í kringum dólgana sem ég vinn með.
Hvaða kaffihúsi/veitingastað viltu mæla með?
Ég er úthverfamella og held mig við það sem ég þekki. Vegamót klikka seint.
Hvaða starf myndirðu velja þér ef þú værir ekki að gera það sem þú ert að gera núna?
Þegar ég var fimm ára var ég staðráðin í því að verða rithöfundur. Sá draumur lifir enn.
Hvað ertu að fara að gera á eftir?
Klára blað, kynnast Garðarbæ og taka upp úr kössum.
Að lokum: Heilræði til okkar hinna?
Hugsið í lausnum, ekki vandmálum. Eða bara sleppið því að hugsa.
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.