Samkvæmt könnun OECD eru 60% íslendinga yfir kjörþyngd, 20% eru taldir glíma við offitu.
Þessar tölur eru sláanlegar, þannig var það t.d. að meðalkarlmaður var 83 kíló árið 1967 en árið 2007 var hann kominn upp í 91 kíló. Meðalkonan var 69 kíló árið 1967 en árið 2007 var hún 76 kíló.
Tíðni sykursýki og fleiri alvarlegra sjúkdóma hafa aukist í samræmi við þyngd okkar svo ekki sé talað um neyslu þunglyndislyfja.
Við erum semsagt feit og óhamingjusöm þjóð.
En hvað veldur þessu?
Við getum ekki borið fyrir okkur þekkingarleysi, við erum vel upplýst um hvað er okkur hollt og óhollt, það er beisikk að við eigum að borða holla fjölbreytta fæðu, forðast unna matvöru fulla af hveiti, sykri og fitu og hreyfa okkur reglulega.
Erum við þá ekki bara löt og kærulaus? Við berum ekki virðingu fyrir líkama okkar og heilsu heldur komum fram við líkama okkar eins og ruslafötu.
Mér finnst þetta svo sorgleg þróun og þetta er að mínu mati alvarlegasta vandamál sem við eigum við að etja á Íslandi í dag.
Við erum orðin eitthvað svo veruleikafirrt, kvörtum yfir því hvað allt er dýrt en keyrum á einkabílum öll okkar erindi og gúffum í okkur ruslfæði.
Við þurfum sérstakar þemavikur eins og “hjólum í vinnuna” og “göngum í skólann” til að minna okkur á að leggja bílnum og ganga á tveim jafnsléttum þó það sé ekki nema þessa einu viku..
Hættum þessu í guðs bænum, berum virðingu fyrir þessum líkama sem okkur var gefinn og þurfum að lifa með alla ævi, líkami okkar er ekki ruslafata, líkami okkar þarf hreyfingu og sál okkar fylgir með, heilbrigð sál í heilbrigðum líkama.
Ég tók mig í gegn í sumar og hef tekið eitt skref í einu í átt að heilbrigðari lífstíl.
Númer eitt er að forðast sykur, hveiti og mikla fitu og það er ekkert eins erfitt og það hljómar, fólk spyr mig samt endalaust” hvað ég borði þá eiginlega?” – það virðist vera aðalvandamál fólks að það er hugmyndasnautt og fast í einhæfu matarmynstri.
Ég er dugleg að leita að uppskriftum á netinu t.d. á Café Sigrún og svo eru margar frábærar facebooksíður með girnilegum uppskriftum eins og NæringogHeilsa, Hvað á ég að gefa barninu mínu að borða? og Himneskt.
Fyrir fólk sem er ekki duglegt að elda og ber fyrir sig tímaleysi þá er það engin afsökun, það er nóg framboð af hollum skyndibitastöðum, mínir uppáhalds eru:
- Saffran
- Gló
- Nings
- Serrano
- Núðluskálin (Skólavörðustíg)
- Happ ( turninum Höfðatúni)
- Sushismiðjan (við Reykjavíkurhöfn)
Good luck!
Vala vinnur hjá 66 Norður, er menntaður innkaupastjóri og faglegur ráðgjafi hönnuða í öllu sem snýr að viðskiptum og markaðssetningu. Hún er krabbi, fædd árið 1979 og montin mamma tveggja stráka. Býr í 101.