Í dag er sunnudagsmorgun og heill dagur af skylduleysi framundan. Sunnudagar eru bestu dagarnir. Langir og fínir og það skiptir engu hvort veðrið úti er “gott” eða “vont”. Það má alltaf fá eitthvað gott út úr þessum degi.
Hér eru nokkrar hugmyndir:
1. Bjóddu ættingjum eða vinum í brunch. Það er lítið mál. Gerir bara eggjahræru, steikir smá beikon, kaupir djús og kaffi og ristar brauð. Getur boðið upp á litla köku úr bakaríinu í eftirrétt. Bruch er í raun ódýrasta og skemmtilegasta “matarboðið”.
2. Sorteraðu myndir í tölvunni þinni. Hentu út þessum sem þú ætlar ekki að nota. Veldu eina góða úr hverri “senu”. Brenndu svo þessar góðu á disk eða settu á utanáliggjandi harðan disk. Svo er líka tilvalið að senda nokkrar á Úlfarsfell og láta prenta út 😉
3. Farðu með sumarfötin inn í geymslu eða upp á loft og taktu vetrarfötin fram.
4. Farðu í gegnum nokkrar skúffur í eldhúsinu. Taktu allt upp úr þeim. Þrífðu skúffuna. Settu aftur ofan í og blíng! Ekkert smá fín skúffa!
5. Lestu fimm blaðsíður í sjálfshjálparbók og veltu boðskapnum fyrir þér.
6. Farðu í göngutúr, helst meðfram sjónum, eða annarsstaðar í náttúrunni.
7. Farðu á bókasafnið, finndu bók um eitthvað sniðugt og lærðu eitthvað nýtt. Einnig er sniðugt að krækja sér í hljóðbók, skottast heim og taka til meðan hlustað er á hljóðbókina.
8. Skelltu þér í sund og gufu. Taktu með hampbursta og skrúbbaðu kroppinn hátt og lágt.
9. Drífðu þig niður í bæ og finndu bókakaffihús. Lestu nokkkur góð tímarit eða flettu í gegnum flotta bók.
10. Farðu á myndlistarsýningu. List er fyrir alla.
11. Sorteraðu gömul leikföng barnsins. Settu í poka og gefðu í Rauða Krossinn eða Hjálpræðshernum.
12. Leggstu upp í sófa og horfðu á góða mynd meðan rigningin slær létt á rúðuna.
Umfram allt – Njóttu dagsins!
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.