Vissir þú að 99,9% af öllum myndum sem þú sérð í tímaritum hefur verið breytt svo að fólkið á myndunum líti betur út? Vissir þú að með tölvutækni er útliti leikkvenna í sjónvarpsþáttum og kvikmyndum breytt svo þær líti betur út?
Það er vitað mál að á liðnum áratug hafa kröfur kvenna til eigin útlits aukist mjög. Reyndar á þetta ekki við um allar konur en stór hópur, og þá sérstaklega þær yngri, hafa jafnvel mjög óraunhæfar hugmyndir um hvernig þær “eigi” að líta út.
Gullfallegar ungar konur eru þannig í sífellu að setja út á hin og þessi “lýti” á eigin líkama meðan enginn kemur auga á þau nema þær sjálfar.
Í gær las ég frétt á Sky News um að æ fleiri börn séu tekin til meðferðar vegna átraskana. Þar kemur margt til en meðal annars geta áföll í lífinu leitt til þess að börnin byrja að svelta sig; skilnaður foreldra, einelti, flakk á milli skóla og annað. Börnin nota jafnvel sveltið sem leið til að fá athygli foreldra sinna. Á síðustu þremur árum hafa rétt um 100 lítil börn, yngri en 7 ára, fengið meðferð við átröskun í Bretlandi. Um 600 börn frá 7-12 ára hafa farið í sömu meðferð.
Vissulega hlýtur átröskunin líka að tengjast því hvernig mæður og eldri systur, konur í lífi barnsins, tala í kringum það. Við horfum í spegilinn, klípum í bumbuna og skömmumst eitthvað yfir eigin líkama meðan barnið sér ekkert annað en mömmu sína sem er fallegust og fullkomin í augum þess – og börnin læra það sem fyrir þeim er haft. Það líður ekki á löngu þar til sú litla fer að hafa áhyggjur af eigin útliti og leita leiða til að “bæta” það meðan við sjáum bara fullkomna litla stelpu, fallega unglingsstelpu eða flotta unga konu.
Það er vitað mál að allar konur vilja líta vel út. Okkur líður vel þegar við erum með fallegt hár eða flotta klippingu, þegar við erum í hraustum líkama, með fallega húð og smekklega klæddar. Aðlaðandi er konan ánægð -það er staðreynd og betrumbætur á útliti geta hjálpað fólki að líða betur með sjálft sig.
Heilbrigð kona gerir sér hinsvegar grein fyrir því að lífshamingjan verður aldrei skrifuð á fullkomið útlit og fullkominn fataskáp. Líf þitt fullkomnast ekki eftir fegrunaraðgerð eða ferð í Kringluna.
Þú verður ekkert MIKLU hamingjusamari þó þú missir fimm kíló, eða tíu. Sönn hamingja er fengin með öðrum hætti (þó að fallegir og vel gerðir hlutir, skemmtilegar athafnir og gott útlit gefi lífinu sitt gildi).
TEIKNAÐAR KONUR ERU FYRIRMYNDIRNAR
Skrítnastar eru fyrirmyndirnar. Við sjáum þær t.d. í Sex and the City, Cougar Town, Beverly Hills 90210, Desperate Housewives og svo framvegis. Fullkomnar manneskjur – hver annari glæsilegri, grannar og ó svo æðislega klæddar alltaf. Og í blöðunum birtast myndir af þeim sem eru enn fullkomnari! Ekki einn einasti blettur sem kalla mætti ófullkominn, allt á sínum stað, öll hlutföll jöfn – já, þær eru algjörlega lýtalausar! Nánast eins og einhver hefði teiknað þær.
Og það er einmitt málið. Þær eru teiknaðar! Á síðustu tíu árum, eða eftir að tími stafrænna ljósmynda og kvikmyndagerðar rann upp hefur útlit kvenna í fjölmiðlum gerbreyst. 99,9% af öllum myndum sem við sjáum í blöðum eða tímaritum hefur verið breytt. Broshrukkur eru þurrkaðar út. Varir stækkaðar. Augun stækkuð. Brjóstin stækkuð, mittið gert mjórra og svo framvegis. Jafnvel hálsinn er lengdur. Fræga fólkið er með fólk í vinnu sem sér um að fara yfir ALLAR myndir og breyta þeim. Þar fyrir utan æfir það kannski 2-3 tíma á dag og er með fólk í vinnu við að sjá um að elda fyrir sig, útbúa matinn – og þá eru ónefndar fegrunaraðgerðirnar.
Og þetta miða venjulegar konur við, skammast yfir sjálfum sér í speglinum og litlu dætur okkar smitast. Þetta er vissulega varhugaverð þróun sem kallar á sjálfsskoðun og reglulegar áminningar. Minntu þig reglulega á tilvist Photoshop. Stundum getur verið flókið að lifa í þessum þægilega heimi sem er svo uppfullur af blekkingum.
Það er á þína eigin ábyrgð að nota skynsemina í þessum efnum.
Kíktu hér á forvitnilegt myndband um málið þar sem ljósmyndari útskýrir hvernig unnið er með myndirnar sem margar konur nota sem sínar fyrirmyndir. Myndbandið var gert 2008 en síðan hafa tilraunir eðlilegra kvenna til að máta sig við þær teiknuðu bara færst í aukana:
[youtube]http://www.youtube.com/watch?v=YP31r70_QNM&NR[/youtube]
HÉR má síðan sjá tilraun mína með Photoshop sem ég gerði fyrir tveimur árum. Umbreytingin tók hálftíma.
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.