Árið 2001 byrjaði ég að drekka kaffi. Ég var stödd á Egilsstöðum og vinkona mín dró mig með sér inn á kaffihús og bauð mér upp á Kaffi Latte.
Það var þá sem ég ákvað að vera fagurkeri í kaffidrykkju og kaupa mér baunir í sérbúðum, mala þær sjálf og leggja metnað í kaffiuppáhellingu.
Tíu árum síðar fjárfesti ég svo í alvöru kaffivél eftir að hafa velt vöngum yfir kaupunum í dágóðan tíma. Ég fór á stúfana og gúgglað kaffivélakaup þar til ég var búin að lesa allt internetið og komst að þeirri niðurstöðu að kaupa vél af tegundinni Rancilio Silvia, ítalska vél sem á sér sögu, keypta á krúttlegum kaffibar sem heitir Kaffifélagið við Skólavörðustíg 10.
Kaffifélagið er svo persónulegur kaffibar að viðskiptavinirnir ljóma þegar þeir koma inn. Þegar ég fór þangað um daginn fylgdist ég með handbragði kaffibarþjónsins sem heilsaði öllum viðskiptavinunum eins og gömlum vinum. Hún vissi nákvæmlega hvað hver vildi og leyfði viðskiptavininum að taka þátt í uppáhellingunni með því að láta þá segja “nóg” þegar hún hellti mjólkinni í glasið.
Mér leið eins og ég væri komin í ítalska bíómynd, það vantaði bara kossana og handabendingarnar til að toppa mómentið.
Kaffið sem er selt hjá Kaffifélaginu kemur frá Ítalíu en það er keypt af lítilli fjölskyldu í Mílanó og frá Róm og innflutt af eigendum barsins. Kaffibarinn var stofnaður 1. Júní 2007 en eigendurnir hafa selt kaffivélar síðan 1986.
Það sem mér finnst svo æðislegt við þennan kaffibar er að í fyrsta lagi er hann einstaklega persónulegur, viðskiptavinirnir skilja eftir sig fótspor á vegg þar sem stimpilkortin þeirra hanga öll uppi, umhverfið er afslappandi og þægilegt.
Kaffifélagið festir sig ekki í stífum hefðum heldur leyfir kaffinu að njóta sín og notar hráefni sem nær því besta úr kaffinu og í staðinn fyrir að hafa ákveðnar reglur hvernig kaffið eigi að vera þá máttu hafa það bara nákvæmlega eins og þú vilt. Kaffibarþjónarnir gera sér fulla grein fyrir því að kaffi er lifandi afurð sem er breytilegt eftir árstíðum og umgangast það sem slíkt og gerir það kaffið svo mjúkt, smá sætt og sjúklega gott.
Ég mæli með að skella sér á Skólavörðustíginn og fá sér kaffibolla á Kaffifélaginu. Ef þú ert heppin að hitta hana Tinnu þá mæli ég líka með að heyra söguna um Rancilio Silvia vélina og dvöl hennar á Ítalíu.
Sigrún Þöll Þorsteinsdóttir (f.15 feb 1975 – d. 8 apríl 2014) bloggaði á Pjatt.is í rúmlega tvö ár.
Sigrún Þöll starfaði sem tölvunarfræðingur, var dellukona, tækjasjúk og fagurkeri af lífi og sál. Að eigin sögn fannst Sigrúnu gaman að hlaupa, hjóla, drekka kaffi, huga að heilsunni, prjóna, lesa, taka ljósmyndir, rækta garðinn sinn og fleira og fleira. Blessuð sé hennar minning. Sigrún verður ógleymanleg þeim sem kynntust þessari dásamlegu konu.