Neyðin kennir naktri konu að spinna. Eitt af því sem blessuð kreppan hafði í för með sér var að ótal margar konur tóku upp á því að fara út í eigin rekstur….
…og það er gott og blessað.
Það getur sannarlega flokkast undir lífsgæði að ráða eigin vinnutíma en stundum geta verkefnin hlaðist upp og allt í einu er maður komin með upp fyrir eyru af hinu og þessu sem þarf að gera.
Stundum virðist það jú sem svo að jafnréttisbaráttan hafi að mestu skilað konum fleiri verkefnum að sinna. Vinnan og “karríerinn” bætast bara ofan á gamla ‘húsmóðursstarfið’, sem þó er fullt starf og rúmlega það stundum fyrir eina manneskju og til að sinna því virkilega vel hafa margar gengið í sérstakan skóla.
Þannig getur það orðið verulega flókin kúnst að halda jafnvægi á vinnu og einkalífi, sinna starfinu sínu og svo öllu hinu um leið svo vel sé. Börnum, heimilishaldi, vinum, heilsunni, útlitinu… og svo mætti lengi telja. Oftast verður eitthvað undan að láta. Spurningin er bara hvað?
Svo flókið og yfirþyrmandi getur þetta orðið að sumum finnst þær bara vera að brenna upp.
Forgangsröðin verður öll öfugsnúin og skyndilega situr flest allt á hakanum nema blessuð vinnan, sem er jú í raun afsprengi sköpunarkrafta viðkomandi og verður því okkur eðlilega kært að sinna. Þannig er þetta hjá öllu því fólki sem starfar sjálfstætt og flest þetta fólk á það sameiginlegt að þrá hugarró og yfirsýn með öllu sem þarf að sinna.
En hvernig hægir maður á sér þegar það eru endalaus og óteljandi verkefni fyrir höndum?
Hér eru nokkur gagnleg ráð:
1. Farðu frá tölvunni og snjallsímanum
Þetta gæti reynst mjög erfitt fyrir alla Facebook fíklana, blogglesarana, fréttafíklana og emailistana og við erum allar jafn sekar — en í alvöru… Prófaðu að “anda að þér ilmi rósarinnar” og njóta hans í stað þess að taka mynd af blessuðu blóminu og pósta strax á Instagram. Skilningarvitin munu þakka þér greiðan.
2. Einbeittu þér að einu í einu
Það fylgir því ákveðin frelsistilfinning að loka á alla opnu gluggana og hafa bara eitt forrit opið í einu. Einbeittu þér algjörlega að einu verkefni, eða þessari einu manneskju, og láttu allt annað eiga sig rétt á meðan. Hver kannast ekki við að vafra á FB meðan talað er í símann? Hættu því. Manneskjan á hinni línunni á það jafn skilið og þú.
3. Taktu til
Þegar maður er að kafna úr stressi getur verið gott að ‘blasta’ góðum Bob Marley eða Beoncey og byrja bara að taka til. Þegar allt er orðið spikk og spam finnst manni maður hafa umtalsvert meiri stjórn á öllum aðstæðum.
4. Gefðu þér smá tíma til að hugleiða og líta yfir stöðuna
Skrifaðu dagbók. Alvöru bók, ekki í tölvuna. Gerðu þetta um leið og þú vaknar, áður en þú gerir nokkuð annað. Skrifaðu niður hvað þú ætlar að gera yfir daginn og hvernig þú vilt hafa hann.
5. Hættu að hafa svona marga bolta á lofti
Gefðu þér bara örfá markmið á hverju degi og kannski bara eitt stórt fyrir árið. Það eru mikið meiri líkur á að þér takist hlutirnir ef þú ætlar þér ekki of mikið.
6. Hættu að búast við svona miklu af sjálfri þér
Heimurinn ferst ekki þó að það sé ekki alltaf allt fullkomið sem frá þér kemur. Við erum fæstar að ‘díla með mannslíf’.
7. Stundaðu líkamsrækt
Við vitum allar að við höfum gott af þessu en hversu margar stunda í alvöru líkamsrækt? Flestar sitja meira eða minna fyrir framan tölvu á daginn eða eru á flandri í bíl. Að byrja alla daga á líkamsrækt eða hreyfa sig alltaf þegar maður kemur því við hefur verulega góð áhrif á stress og streitu. Þú finnur muninn UM LEIÐ og þú gerir þessar breytingar.
8. Spyrðu -Af hverju er ég að þessu?
Farðu yfir markmiðin þín og vertu viss um að þú vitir af hverju þú ert að eltast við þau. Af hverju ertu að reka þennan vinnustað? Hvað er það sem ræður ferðinni? Hvers vegna byrjaðiru á þessu í upphafi? Vertu viss um að þú sért ekki að gera þetta, af því bara.
9. Tæmdu krukkuna
Lífið snýst allt um jafnvægi. Lítil dæmisaga sýnir okkur krukku fyllta með steinum og vatni.
Ef þú setur of marga steina í krukkuna, flæðir vatnið yfir. Stóru steinarnir tákna það mikilvæga í lífinu: Heilsuna, börnin, fjölskylduna… litlu steinarnir eru allt hitt og ef þú fyllir krukkuna með litlum steinum verður ekkert pláss eftir fyrir þessa stóru, mikilvægu steina. Einbeittu þér að því sem mestu máli skiptir – og það er fólkið í lífi þínu.
10. Leitaðu að kyrrð og ró
Jarðvegurinn þarf að fá að hvíla sig til að eitthvað geti vaxið upp úr honum. Ef þú rótar daglega í moldinni fær hún ekkert næði til að bara vera þarna, í sólinni, rigningunni og gefa sína næringu. Moldin gerir það sem hún þarf að gera, hún lætur gróðurinn og vaxa en það vex ekkert ef hún fær ekki frið til að hvíla sig.
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.