Ég skrapp ein í bíó um daginn. Yfirleitt hef ég náð að dobbla einhverja vinkonu með mér en eftir að hafa prófað einu sinni, vissi ég að þetta yrði í lagi!
Eiginlega er bara mjög fínt að fara ein í bíó; þú velur myndina án tillits til annarar manneskju, ert algerlega ótrufluð og hefur síðan eitthvað að tala um við vinkonurnar næst þegar þú hittir þær.
Besta bíóið til þess að fara ein í er Bíó Paradís. Þar eru myndirnar fjölbreytilegar. Mikið er um íslenskar myndir, heimildamyndir, erlendar verðlaunamyndir o.m.fl. Hér má skoða dagskrána: http://bioparadis.is/
Ég skrapp síðast í tíu-bíó að sjá Animal Kingdom. Það er hrikalega vel gerð mynd frá Ástralíu sem fjallar um ungan dreng sem er dreginn inn í glæpaheim.
Myndin er byggð á sönnum atburðum Pettingill fjölskyldunnar og morði á tveimur lögreglumönnum sem framið var árið 1988. Animal Kingdom er margverðlaunuð og er um að ræða gott handrit og mjög góðan leik. Svo það er auðvelt að mæla með henni!
Núna í vikunni eru Hinsegin bíódagar í tengslum við gleðigöngu samkynhneigðra sem verður haldin á morgun og fer hver að verða síðastur að skella sér! Kýldu á það í kvöld!
Eva er menntuð sem sviðslistakona úr Fræði og framkvæmd frá Listaháskóla Íslands og menningarmiðlari úr Hagnýtri menningarmiðlun frá Háskóla Íslands. Eva er líka mikill fagurkeri enda fædd í vogarmerkinu.