Af gefnu tilefni er ég mikið að spá í brúðkaup þessa dagana. Ég búin að kíkja á hinar ýmsu síður og sé að það er stór bransi í kringum giftingar sem er gott og blessað en jafnframt er afskaplega mikill kostnaður sem fer í hluti sem ég allavega tel óþarfa.
Aðalmálið er auðvitað að tveir einstaklingar eru búnir að finna hvort annað og vilja vera saman til æviloka, en í heimi brúðkaupsbransans er auðvelt að týna sér í allskonar smáatriðum og verða einhver “Bridezilla”..
Það er hægt að spara á ýmsum stöðum. Ég þyrfti t.d. EKKI gullbrydduð boðskort, áletraðar servíettur, margrétta borðhald með kokkum og þjónum, leigðan marengs-brúðarkjól, brúnkusprey, gervineglur, hárgreiðslu- og förðunarfólk, aðkeyptar blómaskreytingar, dýrasta borðvínið og þar fram eftir götunum.
Brúðarvendir og skreytingar eru mjög dýrar og ef brúðkaupið er um sumar er tilvalið að nota villt blóm í bæði í brúðarvöndinn og skreytingar. Mér finnst aðalmálið að brúðkaup sé skemmtilegt. Ef maður á hæfileikaríka vini getur maður sparað sér ljósmyndara og jafnvel kokk og tónlistar- og skemmtiatriði geta jafnframt verið í höndum vel valinna vina og ættingja. Maður þarf ekki margra rétta borðhald og getur valið sér pinnamat eða einfaldan mat á hlaðborði og leyfa fólki að fá sér sjálft á diskana. Draumur minn er að halda sveitabrúðkaup þar sem pláss er fyrir alla gesti sem vilja að gista og dansa fram á nótt.
Hagsýn brúður sem þó vill sérsaumaðan kjól getur valið látlaust snið og efni sem hægt er að stytta og lita eftir brúðkaupið og nota áfram.
Ég hef líka séð fallega Vintage-brúðarkjólar í Rokki og Rósum og Nostalgíu sem ekki kosta mikið. Giftingarhringir geta líka verið mjög dýrir en hver þarf risastóran demantshring til að vera ánægður? Það er vel hægt að finna flotta hringa á góðu verði, að eyða hundruðum þúsunda í hringa finnst mér vera rugl. Nema þá maður eigi bara skítnógan pening 😉
Það er fullt af sniðuguum “Do-it-yourself” síðum á netinu þar sem maður getur fengið hugmyndir og byrjað snemma að undirbúa lítil smáatriði eins og boðskort, merkimiða ofl sem manni finnst gaman að gera.
Mikilvægt er að gera ekki of miklar kröfur um að allt verði að vera fullkomið, undirbúa sig undir að veðrið geti orðið vont, frænka geti orðið blindfull, brúðarmeyjan geti hellt kókómjólk yfir sig ofl. án þess að leyfa því að eyðileggja daginn.
Maður giftir sig jú bara einu sinni (vonandi) og á bara að njóta þess, fagna ástinni og eiga góðan dag með vinum og ættingjum.
Vala vinnur hjá 66 Norður, er menntaður innkaupastjóri og faglegur ráðgjafi hönnuða í öllu sem snýr að viðskiptum og markaðssetningu. Hún er krabbi, fædd árið 1979 og montin mamma tveggja stráka. Býr í 101.