Tímastjórnun er mikilvægt verkfæri okkar nútímafólks enda í ótal horn að líta bæði heima og í vinnu og einkalífi.
Þau sem hafa tileinkað sér gott skipulag í lífinu afkasta yfirleitt meira en hin sem ekki gera það og reglulega er boðið upp á námskeið í hinum ýmsu fræðum sem gera okkur hæfari á helstu sviðum lífsins.
Eftirfarandi eru fimm atriði sem hjálpa okkur að sortera svolítið til í tilverunni og gera það að verkum að við komum meiru í verk á styttri tíma, hvort sem verkin ganga út á að taka niður jólaskraut, fylla út pappíra, hringja símtöl, kaupa í matinn eða skrifa skáldsögu.
1. Fagnaðu einfaldleikanum
Veltu fyrir þér öllu sem truflar þig yfir daginn. Lítil atriði sem skipta ekki miklu máli en krefjast hinsvegar mikilvægrar athygli sem á að fara í annað. Hvað geturðu sett á sjálfvirkni, fengið aðra til að gera, sleppt eða sett til hliðar og látið bíða betri tíma?
Þeir einstaklingar sem koma mestu í verk gera skýran greinarmun á því hvað skiptir máli og hvað ekki og á sama tíma eru þau dugleg að fá fólk til að taka að sér minni verkefni. Og hvernig er þetta inni á heimilinu? Ert þú að gera allt og lætur annað heimilisssfólk sjá um að skaffa þér verkefni á borð við tiltektir og annað? Treystirðu engum nema sjálfri þér til að “þurrka rétt af borðinu”. Skoðaðu málið og sjáðu hvort þú sért að eyða of miklum tíma í hluti sem skipta ekki máli eða aðrir gætu gert.
2. Forðastu óþarfa áreiti og truflanir
Við erum í sambandi við umheiminn allan sólarhringinn hvort sem er í gegnum tölvupóst, Facebook, símann eða aðra miðla. Það er mikið áreiti í gangi og því mikilvægt að sjá til þess að það sé ekki alltaf eitthvað sem dregur athyglina frá því sem við erum að reyna að gera. Hvort sem það eru vinnutengd atriði eða afþreying sem dregur að sér athyglina þá er mjög mikilvægt að búa sér til “heilagt svæði” þar sem ekkert fær að trufla þig. Athugaðu líka að því meira sem áreitið er á þér því gloppóttara verður minnið og einbeitingin.
3. Virtu eldmóðinn
Ekkert vinnuferli eða skipulag getur komið í staðinn fyrir eldmóð. Fólk sem afkastar miklu veit að eldmóðurinn er það sem mestu skiptir og því gerir það ráð fyrir að geta sveigt tíma sinn í takt við þær stundir þegar eldmóðurinn tekur yfir. Stundum gerist það þó ekki og hugurinn virkar eins og grámóðulegur þriðjudagur þannig að við verðum að þvinga okkur í gang en um leið og eldurinn kviknar er mikilvægt að geta hliðrað til. Þannig sparast oft mikill tími og gæði þess sem þú ert að framleiða eða gera, eykst til muna.
4. Afmarkaðu stuttar stundir í að hrinda hlutum í framkvæmd
Hverju myndirðu koma í verk ef þú biðir alltaf þar til þú hefðir nægan tíma. Afkastamikið fólk áttar sig flest á því að með því að afmarka verkefnum ákveðnar stundir, hvort sem það er klukkustund eða korter, þá fer það áfram skref fyrir skref þar til því er lokið. Þetta gildir bæði fyrir stór og lítil verkefni.
5. Gerðu lista og settu þér markmið
Öll markmið eru studd af öðrum minni eða stærri markmiðum. Ef þú nærð að skilgreina þetta samhengi áttu styttra í land með að láta drauma þína rætast.
Ef þig langar til dæmis að skipta alveg um vinnu og fara að gera eitthvað allt annað þarftu kannski að skella þér í skóla í einhvern tíma, bæta tengslanetið, fara yfir ferilskránna eða næla þér í einhver réttindi. Og til að ná þessum áföngum þarf að gera eitthvað á hverjum degi.
Með því að búa til daglega “To do” lista og framkvæma það sem stendur á þeim kemurðu þér áleiðis að lokamarkinu. Afkastamikið fólk á það flest sameiginlegt að vera iðið við að búa til slíka lista og fylgja því sem stendur á þeim eftir.
Ágætt er að taka t.d. eitt af þessum atriðum og setja sér að ná ágætum tökum á þessu áður en farið er yfir í næsta.
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.