Heitt og kalt, lekkert og lummó, smart og púkó… eigum við ekki að hafa þetta allt á hreinu?
Hér eru topp 13 atriði yfir það sem okkur finnst ýmist smart eða bara hætt að virka. Listinn er í raun ótæmandi en hérna er svona þetta helsta sem við höfum komist að upp á síðkastið….
LEKKERT!
1. Túberað hár
Túberað hár getur verið einstaklega lekkert, bæði á Briget Bardot, Kate Moss og Amy Winehouse. Klassísk leið til að búa til smá töffaraskap og gengur hvenær sem er, nema kannski í miklu roki og rigningu?
2. Beige, leður, camel og kremað
Blandaðu saman brúnum, gylltum og ljósbrúnum eða bronslitum í fatavali og þú lítur umsvifalaust út fyrir að vera talsvert ríkari. Hættum í þessu svarta endalaust. Jakkann hér að ofan hannaði Tom Ford fyrir næsta vor og fyrirsætan er með túberað hár.
3. Undirkjólar
Þeir eru ekki bara kynþokkafullir heldur forða þeir kjólnum frá að klessast við rassinn. Svo má líka nota undirkjólinn einan og sér ef vel viðrar á sumrin. Blúndur eru sætar.
4. Karlmannleg kvenfatatíska
Strákastelpurnar eru að koma sterkar inn, blazer jakkar, Dr. Martins bomsur og axlabönd blandað með skartgripum og kvenlegum greiðslum gefur góða útkomu.
5. Falleg undirföt
Hvað með að splæsa á sig fallegum, samstæðum undirfötum fyrir áramótin? Burt með ömmubrækurnar og inn með blúnduna.
6. Skartið frá Kríu
Skart sem minnir á galdralækna í afríku, litlar hauskúpur og hvassar dýratennur. Skartið hennar Jóhönnu Methúsalemsdóttur er einstaklega flott.
7. Heimagerðir hamborgarar
Það er mikið betra að kaupa ferskt hakk hjá ketsala, blanda það með kryddum og eggjarauðu og hnoða sinn eigin borgara.
8. Happy Hour
Farðu með vinnufélögum í einn kaldan eða hvítvínsglas eftir daginn. Nú bjóða flestir staðir helmingsafslátt á drykkjum einhversstaðar milli kl 16-20.
9. Fiskur
Borðum meiri fisk en ekkert endilega á mánudögum því ferskur fiskur kemur fyrst í búðirnar daginn eftir.
10. Norrænt sjónvarpsefni
Sjónvarpsefni frá norðurlöndunum hefur batnað svo að undanförnu að það er orðið með því skemmtilegasta sem sést á skjánum; Klovn, Vallander og Broen!
11. Brunch
Bjóddu fjölskyldunni eða vinum (eða bæði) í brunch um helgina. Ódýrara og auðveldara en að bjóða öllum í mat.
12. Grænt te
Skiptu nokkrum kaffibollum út fyrir bolla af grænu tei sem innheldur helling af koffíni en er heilsusamlegra í alla staði.
13. Dökkt súkkulaði
Ef þú vilt grenna þig þá ættu möndlur og dökkt súkkulaði að vera eina sælgætið í eldhússkápnum.
LUMMÓ!
1. Ljósabekkir
Kjánaprik liggja í ljósabekkjum til að öðlast heilbrigt útlit og auka líkur sínar á hrukkum og krabbameini – aðrir láta þá eiga sig. Við eigum að vita þetta enda vísindalega sannað.
2. Óhófsdrykkja
Það er lekkert að láta sjá sig á barnum klukkan fjögur síðdegis en ekki klukkan fjögur á nóttunni. Ekki vera síðust heim og passaðu þig að drekka ekki of mikið. Það er bara ekki smart að vera blindfull.
3. Crocks
Það fer ekki nokkur maður inn um gullna hliðið á Crocks skóm.
4. Kaffi latte
Einn í viku er allt í lagi en daglegt latteþamb belgir þig út og bætir á þig kílóum. Gáfumenni drekka í raun svart þannig að þetta með lattelepjandi lopatrefla er bara misskilningur. Ef þú vilt fara vel með þig þá ertu spör á latte bollana.
5. Barnamatseðlar
Allir veitingastaðir borgarinnar virðast bjóða börnum upp á það sama: Hamborgara, kjúklinganagga og spaghettí. Er virkilega ekki hægt að gera betur? Hvers eiga börnin að gjalda?
6. Fæðubótaefni
Hver vill duft þegar alvöru matur er í boði? Það er óþarfi að raða í sig pillutegundum og dufti til að komast í form. Hreyfðu þig bara, borðaðu hæfilega skammta af mat og þú sérð árangurinn! Enda veistu ekkert hvaðan þetta duft kemur eða hvað er eiginlega í þessu.
7. Dularfullir FB statusar
Gerðu það hættu að hinta á Facebook. Ef þig langar að segja eitthvað, segðu það þá – Ekki koma með dularfulla hintstatusa á borð við: “Sumir eru glaðir núna” eða “Nú er ég að deyja úr spennu.”
8. French Manicure
Langar gelneglur “french manicure” eru ekki málið í dag (hafa eiginlega aldrei raunverulega verið það). Vertu heldur með eigin neglur og prófaðu eitthvað af öllum flottu lökkunum sem eru í boði.
9. Flókið mataræði
Hráfæði, basískt, súrt, hreinsandi, ristilskolun, maccaduct, blómafræflar, bygg og sojaoja ah ha ha. Lífið á ekki að þurfa að vera svona flókið. Hvað varð um að borða bara venjulegan hollan mat og í réttum skömmtum? Er það ekki lengur í tísku?
10. Kók
Íslendingar eiga heimsmet í gosdrykkjaþambi en þetta kemur bæði niður á heilsu og útliti. Hættum þessu rugli.
11. Útivistarföt þegar þau eiga ekki við
Það er flott að fara í flíspeysu þegar þú ert í bústað eða á fjöllum en ekki nota svona fatnað í Kringluna og vinnuna. Lífið er of stutt til að vera ekki lekker. Við erum jú Pjattrófur, ikke?
12. Kreppa og hrun: Skyr, skegg (sama þó það sé rytjótt), lopi, hákarl og harðfiskur
Ok, kreppan færði okkur nær upprunanum en er þetta ekki komið ágætt af sjálfsþurftabúskap, sláturgerð, fimmundarsöng, lopasokkum og skyri í flest mál? Getum við líka hætt að tala um “hrunið”? Það eru fimm ár síðan. Nú hlýtur að vera í lagi að langa aftur í flotta hönnun og halda áfram með lífið. Bara aðeins vitrari og lífsreyndari en áður.
13. PC tölvur
Ok, við skiljum þetta ef þú ert kerfisfræðingur eða endurskoðandi en PC tölvur eru ótrúlega 2000. Fáðu þér nú makka krakki! Þeir eru bara mikið þægilegri.
Góðar stundir
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.