Einu sinni fór ég á námskeið í tímastjórnun sem vert er að rifja upp. Námskeiðið hélt Thomas nokkur Möller sem er sérlega góður í þessu.
Lífið verður svo miklu einfaldara þegar maður nær að einfalda þessa tilveru sem er jú ó svo flókin með öllum okkar skyldum og verkefnum. Það var sitt lítið af hverju sem við lærðum á þessu námskeiði en hérna læt ég fylgja litla samantekt, sjálfri mér og þér til áminningar. Fann glósumiðann!
ÁKVEÐNI
Fyrst og fremst þarf að sýna ákveðni þegar tímastjórnun er annars vegar. Við getum ekki alltaf verið eins og litlir hvolpar eða sjö ára krakkar sem stökkva af stað eftir næstu hugmynd. Maður verður að kunna að segja NEI. Vinnan flokkast þannig sem ‘harður tími’ þar sem maður þarf að segja nei oft og mörgum sinnum og heima á maður ‘mjúkan tíma’ þar sem tilveran fær að fljóta aðeins meira.
Þetta þýðir þó ekki að vinnan verði að vera kvöl og pína. Það eru ótal leiðir til að gera hana skemmtilegri og mann sjálfan afkastameiri. Hér eru nokkur ráð og það er gott að setja sér þetta sem markmið fyrir þær stundir sem eru afmarkaðar fyrir vinnu:
1. Farðu snemma að sofa og mættu úthvíld í vinnuna.
2. Mættu fimm mínútum fyrr í vinnuna en stimpilklukkan gerir ráð fyrir. Vertu stundvís.
3. Settu þér það markmið að vera búin að klára verkefnið, degi fyrir ‘deadline’.
4. Hreinsaðu inboxið þitt jafnóðum, og alltaf á föstudögum.
5. Stattu upp frá skrifborðinu þínu þegar síminn hringir, gakktu út að glugga og talaðu í símann. Bæði þú og viðmælandinn hafið gott af þessu.
6. Planaðu næstu viku alltaf á föstudögum. Hér er pistill um frábært apparat sem gagnast í þeim efnum.
7. Hafðu alltaf vatn við höndina. Þreyta getur orsakast af vatnsskorti.
8. Reyndu að safna saman öllum verkefnum þínum á einn lista og farðu svo yfir listann með vinnufélaga. Forgangsraðaðu alltaf og settu þrjú mikilvægustu verkefnin á oddinn.
Annað sem er gott í þessum efnum:
- Haltu vikulegan fund með sjálfri þér og farðu yfir stöðuna.
- Hafðu einn fundarlausan dag í hverri viku þar sem þú hittir engan.
- Mættu alltaf snemma í vinnuna.
- Kláraðu verkefni heima ef þú þarft þess.
- Ekki svara símanum nema það sé nauðsynlegt (gott að setja hann stundum á silent).
- Prófaðu að vinna í lotum, klára mörg verkefni sömu tegundar í einni lotu. Taka til dæmis öll símtöl í einni lotu, svara tölvupóstum í einni lotu, sortera pappíra í einni lotu.
- Kláraðu það sem þig langar síst til að gera – fyrst.
- Skipulegðu þig fyrst, framkvæmdu svo.
- Síðast en ekki síst – Lærðu að segja NEI við því sem samræmist ekki markmiðum þínum!
Að lokum legg ég til að þú skoðir vel myndina hérna uppi sem fylgir pistlinum. Hún er góð til áminningar og hefur góð og uppbyggileg áhrif. Smelltu á hana til að gera hana stærri. Sjálf hef ég notað hana sem skjáborðsmynd til að skerpa á þessu.
Gangi þér vel!
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.