Prófatíð hefur aldrei verið uppáhalds árstíðin mín… reyndar er hún í allra seinasta sæti rétt á eftir vetrinum.
Þar sem ég er haldin mjög alvarlegu tilfelli af frestunaráráttu er prófatíðin alveg einstaklega slæm fyrir mig og þjáningarsystkini mín. Ég finn ég mér alltaf helling af verkefnum til að vinna þegar líður að prófum og vanda mig við að finna verkefni sem tengist lærdómnum ekki á nokkurn hátt.
Í undanförnum prófatíðum hef ég t.d. prjónað peysu, handteiknað öll jólakortin sem ég sendi (sem voru reyndar bara 15, en samt!), tekið til í iTunes, farið í átak og einu sinni þegar ég var uppiskroppa með efni sem tengdist ekki lærdómnum ákvað ég að endurskrifa allar glósur fagsins með marglitum pennum. Allt þetta sannfærði ég mig um að ég ÞYRFTI að gera áður en ég gæti byrjað að læra. Það sem virkaði verst var líklega það að fara í átak þar sem mér finnst álíka leiðilegt að mæta í ræktina og að læra undir próf.
Þessi frestunarárátta mín endar alltaf með því að ég vaki í tvo sólarhringa fyrir prófið, drekk 18 lítra af gosi til að halda mér vakandi og borða líklega svipað marga poka af poppi. Þegar ég svo loksins mæti í prófið er ég prófljótan uppmáluð. Reyndar er ég nokkuð viss um að þetta hugtak hafi fyrst verið notað eftir að einhver sá mig taka próf þar sem yfirleitt mæti ég í próf með fjólubláa bauga, rauð augu, skítugt hár, á náttfötunum og með poppmylsnu á bringunni, þyljandi kenningar, kalla og ártöl eins og brjálæðingur.
Einhvern vegin kemst ég samt alltaf lifandi og ófallin út úr prófatíðinni og þess vegna sannfæri ég mig um það næstu önn á eftir að það sé allt í lagi að fresta því að læra af því ég þurfi svo nauðsynlega að flokka prjónana mína eða raða DVD-diskunum mínum eftir stafrófsröð. En innst inni veit ég að eftir nokkra daga verð ég togandi í hárið á mér, gargandi af hverju ég hafi ekki byrjað að læra fyrr og af hverju ég hafi ekki lært meira alla önnina og af hverju hafi ekki klárað að litaflokka naglalökkin mín í sumar þegar ég hafði allan tímann í heiminum.
En ég held ég geti ekki frestað þessu lengur og verði að fara að læra, eða jafnvel endurskipuleggja skartgripastandinn minn, raða eyrnalokkunum í þetta skiptið kannski eftir stærð, ekki eftir því hvort þeir eru úr gulli eða silfri…
Tinna hefur brennandi áhuga á næstum öllu en þó líklega mest á sjónvarpi og kvikmyndum, án þess þó að hafa nokkurt faglegt vit á hvorugu.
Hún er nemandi í mannfræði og starfar með náminu sem samfélagsmiðlaráðgjafi. Hún elskar allt sem kemur eldamennsku og bakstri við, og þá mest af öllu að baka íslenskar pönnukökur og að poppa örbylgjupopp. Markmið Tinnu í lífinu er að vera góð, láta gott af sér leiða og skemmta sér frábærlega á meðan.