Atvinnulaus kona ver mun meira af tíma sínum til heimilisstarfa en karl sem er án vinnu.
…og húsmóðurhlutverkið er atvinnulausum konum ekki tilefni til gleði heldur þvert á móti, að því er ný rannsókn leiðir í ljós.
Þetta kemur fram í grein á RÚV í dag en þau Kolbeinn Stefánsson og Þóra Kristín Þórsdóttir birtu fyrir skemmstu niðurstöðurnar úr rannsókn sinni.
Í greininni segir að lengi vel hafi verið talið að konur sem ekki ynnu úti hefðu frábærlega gaman af tiltektinni. Eða eins og það er orðað:
“Lengi vel var talið að konur sem ynnu ekki úti heldur umföðmunuðu húsmóðurhlutverkið væru miklu ánægðari með tilveruna en kynsystur þeirra sem þræluðu allan daginn á vinnumarkaðnum.”
Þau Kolbeinn og Þóra rannsökuðu þessa staðhæfingu með því að tala við atvinnulausar konur sem telja sig verða að sinna húsverkunum af fullum krafti þar sem þær eru ekki útivinnandi.
Niðurstaða þeirra var sú að útivinnandi konurnar væru hamingjusamari en þær atvinnulausu sem voru heima að taka til. (Og atvinnulausir karlar eru víst aðeins óhamingjusamari en atvinnulausar konur. Þeir taka þó ekki meira til heldur sinna innan við helmingum af húsverkunum).
Mér þótti eitthvað bogið við þetta. Þarna hlýtur að skorta eitthvað af upplýsingum? Af hverju töluðu þau Þóra og Kolbeinn ekki líka við konur sem velja sjálfar að vinna heima? Eða voru þau kannski að rannsaka áhrif af atvinnuleysi en ekki sannprófa alhæfinguna um að heimavinnan færði konum hamingjuna eins og maður skilur á greininni? Ef svo er þá ‘meikar þetta meira sens’.
Það segir sig nefninlega sjálft að kona sem er vön að vinna úti hlýtur að upplifa erfiðleika við það að neyðast heim til sín og hafa ekkert að vakna til. Hinsvegar held ég að þær sem einfaldlega þurfa ekki að vinna úti og geti valið þann lífsstíl sjálfar hljóti að vera í góðum gír, hvort sem þær svo velja að taka til eða gera eitthvað annað á daginn. Frelsið er fólgið í valkostunum.
Manneskja sem er neydd út úr sinni daglegu rútínu og verður fyrir tekjuskerðingu án þess að óska eftir því sjálf getur varla orðið ánægð með nýja hlutskiptið sitt. Og þá gildir það einu hvort hún er heima að þrífa og brjóta saman þvott eða fúaverja girðinguna og gera armbeygjur.
Hér er texti Maríu Baldursdóttur við lagið Eldhúsverkin. Eins og sjá má á skáldskapnum hafði hún ekkert gaman af þessu og ég held að undirrituð myndi gera mjög margt annað en að taka til ef ég hefði ekkert við að vera á daginn.
HÉR má svo heyra Felix Bergsson og Valgerði Guðnadóttur syngja lagið. Frábært lag!
Eldhúsverkin:
Gengur hver dagur sinn gang
lítið mér færist í fang
hlusta á lögin við vinnuna
fer með ruslið út
og þamba pepsí af stút
Og ef að tími vinnst til
hringi ég ef að ég vil
í nokkrar vinkonur úti í bæ
og nýjustu fréttirnar fæ
Mér leiðast svo eldhúsverkin
er ég hími ein
ef ég verð of sein til að elda
ég fíla mig neglda við eldhúsverkin
Ég veit ei verra neitt en eldhúsverkin
Svona var dag eftir dag
endalaust vafstur og stag
vaska upp diska og ryksuga gólf
frá klukkan sjö til tólf
Stend ég upp kvöldmatnum frá
góni ég sjónvarpið á
mér finnst allt lífið allt lífið ein tilgangslaus bið
ég fæ aldrei stundlegan frið
Mér leiðast svo eldhúsverkin….x3
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.