Í sumar hafa strákar og stelpur prjónað á mótorhjólum, hestamenn prjónað á fákum og guttar prjónað á hjólum og núna fer að hausta…
…en þá er ekkert eins kósý, þegar orðið er dimmt á köldu vetrarkvöldi, að taka fram prjónana. Hlýtt og mjúkt garn og búið að fitja upp jafnvel ríflega 100 lykkjur og lagt af stað í að prjóna peysu eða hvað sem hugurinn girnist ef þú ert klár prjónakona eða maður.
Að prjóna gjafir handa öðrum
Mér finnst afar gaman að prjóna og þá sérstaklega handa öðrum. Það er kannski skrýtið en það er sérstök tilfinning að sjá það sem maður hefur prjónað vera notað. Ég prjónaði t.d rosalega fallegt teppi handa fyrstu ömmustelpunni minni og ég held að það sé eitt af því sem mér þykir vænst um að hafa búið til í höndunum.
Stórar peysur, háir þykkir sokkar og legghlífar
Þennan veturinn mæli ég með því að konur og menn, hafi þeir kunnáttu og áhuga á að prjóna, taki sig nú til og geri eitthvað fallegt handa sjálfum sér eða öðrum. Fallegar handprjónaðar peysur eru mikið í tísku í vetur og því stærri og síðari sem þær eru þeim mun flottari eru þær.
það er líka mikið inn í vetur að vera í háum þykkum sokkum og meira segja legghlífar eru í tískublöðunum fyrir þennan veturinn og því ekki að prjóna sér par sjálf og jafnvel húfu í stíl? Úrvalið af garni í verslunum er óendanlegt og blöð með fallegum uppskriftum eru til í miklu mæli. Á netinu er líka hægt að finna eitt og annað sem tengist prjónaskap. Kíkið tildæmis á Pinterest.
Vantar þig lopapeysu fyrir næstu þjóðhátíð?
Eitt sem er einmitt alveg tilvalið að byrja að prjóna núna er lopapeysan fyrir næstu þjóðhátíð í Eyjum. Þær eru víst ansi vinsælar flíkur að brúka á þessari mögnuðu útihátíð. Ef þú átt ekki eina því ekki að skella rétt snöggvast í peysu eftir þínum smekk?
Það eru kannski ekki allir svo heppnir að hafa fengið góða kennslu í að prjóna eins og ég fékk og er ég ævarandi þakklát fyrir það en það eru svo margar góðar konur þarna úti sem eru alveg til í að kenna þeim sem ekki kunna að prjóna.
Kósý vetrarkvöld, hvort sem er uppí sófa eða rúmi, inni í hlýjunni með fallegt garn á prjónunum er einstaklega rómó og mun huggulegra en að hanga á netinu öll kvöld.
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.