Það er margt sem okkur getur dottið í hug að gera þegar við erum í glasi sem við myndum ekki endilega gera án áfengis. Suma hluti gerum við sama hvort við erum í glasi eða ekki og áttum okkur ekki á hættunni sem þeir geta haft í för með sér.
Eitt af því sem ég ákvað mjög snemma að venja mig af eftir að ég byrjaði að fara í bæinn um helgar er að ganga ekki ein heim. Ég var bara svo heppin að það var ekkert slæmt sem þurfti að koma fyrir mig til þess að ég áttaði mig á því að ég var að bjóða hættunni heim.
Ég var 18 ára og nýflutt í íbúð sem var rétt hjá miðbæ Reykjavíkur. Eitt kvöldið fer ég niður í bæ með vinkonu minni og ákveð svo að ganga heim til mín en sendi hana heim í taxa. Stuttu eftir að ég byrja að labba tek ég eftir að það er maður sem er að elta mig og ég byrja að labba hraðar. Hann nær mér samt og gefur sig fljótlega á tal við mig. Ég hef hins vegar engan áhuga á að tala við hann og svara honum bara með já og nei og reyni að labba enn hraðar.
Þar sem það var enginn í kring þorði ég ekki að segja honum að hætta að elta mig af ótta við að eitthvað slæmt myndi gerast og ég ákveð í staðin að halda áfram að vera ágætlega kurteis og ganga enn hraðar. Þar sem gangan heim var líka bara um það bil 7 mínútur var ég fljótlega komin heim og kvaddi manninn sem vildi endilega fá símanúmerið mitt.
Ég hélt nú ekki en hann gafst ekki upp svo ég endaði á því að gefa honum upp rangt númer. Hann reyndist svo að vera hinn mesti herramaður og kyssti mig bless á kinnina, þó mig gruni að sá koss hafi átt að enda einhversstaðar annarsstaðar. Þegar ég kom inn hélt ég að ég væri laus við þennan mann enda fannst mér þetta vera nokkuð skýr skilaboð sem ég sendi honum með því að gefa upp vitlaust símanúmer og fara undan kossinum í flæmingi. Því miður hafði ég rangt fyrir mér og maðurinn mætti á dyrasímann hjá mér í nokkra mánuði eftir þetta atvik til þess að bjóða mér út á deit.
Systir mín var sem betur fer það góðhjörtuð að taka það að sér fyrir mig í hvert skipti að ræða við manninn sem vildi samt ekki meðtaka það sem systir mín sagði honum um það að ég ætti ekkert heima þarna. En að lokum hætti hann samt að hringja bjöllunni hjá mér eða ég flutti ég man ekki hvort kom á undan.
Þó þetta sé engan vegin það versta sem getur komið upp á þá hugsa ég um þetta kvöld í hvert einasta skipti sem mér dettur sú snilldarhugmynd í hug að labba ein heim af djamminu og ég hætti alltaf við, af því ég veit að mér fannst nógu slæmt að hafa miðaldra karlmann fastann á bjöllunni heima hjá mér í einhverja mánuði, hvað þá ef eitthvað mörgum sinnum verra myndi nú koma upp á.
Tinna hefur brennandi áhuga á næstum öllu en þó líklega mest á sjónvarpi og kvikmyndum, án þess þó að hafa nokkurt faglegt vit á hvorugu.
Hún er nemandi í mannfræði og starfar með náminu sem samfélagsmiðlaráðgjafi. Hún elskar allt sem kemur eldamennsku og bakstri við, og þá mest af öllu að baka íslenskar pönnukökur og að poppa örbylgjupopp. Markmið Tinnu í lífinu er að vera góð, láta gott af sér leiða og skemmta sér frábærlega á meðan.