Líf styrktarfélag heldur bingó í kvöld kl. 20:00 til að fjármagna endurbætur á Kvennadeild Landspítalans.
Bingóið fer fram í salnum Gullteig á Grand hótel en salurinn tekur um 470 manns í sæti.
Allur ágóði bingósins mun renna óskiptur til framkvæmda á Kvennadeild Landspítalans.
Veglegir vinningar eru í boði enda hafa fjölmörg fyrirtæki lagt bingóinu lið. Þar má meðal annars nefna verslanir á borð við Epal, ELLU, AndreA boutique og Volcano ásamt fjöldanum öllum af veitingarstöðum þar á meðal Sushisamba, Tapasbarinn, Fiskmarkaðurinn og Fiskfélagið.
Hér er þó aðeins lítill hluti upptalinn en hægt að nálgast frekari upplýsingar um styrktaraðila bingósins á Facebook viðburði Lífs bingósins.
Bingóstjóri verður engin önnur en Heiða Ólafsdóttir sem söng sig inn í hjörtu Íslendinga þegar hún hreppti 2. sæti í Idolinu árið 2005. Síðan hefur hún stundað leiklistarnám í New York, tekið þátt í ýmsum söngleikjum, komið fram víðsvegar um landið ásamt því að starfa sem útvarpskona á Rás 2.
Megin tilgangur Lífs styrktarfélags er að styrkja Kvennadeild Landspítalans. Helstu verkefni eru að bæta aðbúnað og þjónustu við konur og fjölskyldur þeirra á meðgöngu, í fæðingu og meðan á sængurlegu stendur sem og þeirra kvenna sem þurfa umönnun vegna kvensjúkdóma. Nánari upplýsingar um Líf má finna á heimasíðu félagsins.
Líf styrktarfélag stóð fyrir landssöfnun árið 2011 sem gaf félaginu gott veganesti. Fyrir upphæðina sem safnaðist þá voru gerðar endurbætur á sængurkvennagangi. Nú liggja fyrir endurbætur á kvenlækningadeild og hefur Líf aflað fjármagns til þess verkefnis með dótabasar, Lífstölti og göngu Vilborgar Örnu Gissurardóttur á Suðurpólinn.
Við pjattrófur ætlum allavega pottþétt að kíkja í bingó ef ekki bara til þess að æfa bingóvöðvann aðeins og til að freista þess að hreppa glæsilega vinninga þá til þess að styrkja alveg einstaklega gott og þarft málefni!
Tinna hefur brennandi áhuga á næstum öllu en þó líklega mest á sjónvarpi og kvikmyndum, án þess þó að hafa nokkurt faglegt vit á hvorugu.
Hún er nemandi í mannfræði og starfar með náminu sem samfélagsmiðlaráðgjafi. Hún elskar allt sem kemur eldamennsku og bakstri við, og þá mest af öllu að baka íslenskar pönnukökur og að poppa örbylgjupopp. Markmið Tinnu í lífinu er að vera góð, láta gott af sér leiða og skemmta sér frábærlega á meðan.