Eitt af því sem mér finnst mest áberandi í lífi fólks er þessi rosalega krafa til sjálfs síns og annarra að “passa inn í”.
Þessi ósýnilegi kassi sem við smíðum okkur og troðum okkur í og viljum svo að allir aðrir troði sér í líka svo okkur líði vel með líf okkar.
Þessi kassi er eiginlega bara algjört kjaftæði og gæti verið uppspretta óhamingju þinnar og annarra í kringum þig.
Ef þú ert að hugsa sem svo að þú sért ekki nógu góð nema vera ávallt frábær starfskraftur, besta mamman, æðislegasta eiginkonan, skemmtilegasta vinkonan, meiriháttar kokkur með fallegt og hreint heimili, handlagin, í góðu formi, vel lesin, vel að þér í heimsmálum, falleg, mjó, í nýjustu merkjavörunni, með 3 háskólapróf og óaðfinnanlegan eiginmann og börn o.sv.frv. þá áttu ALDREI eftir að verða ánægð!
Þeim mun meiri kröfur sem þú gerir á þig sjálfa, þeim mun minni er kassinn í kringum þig.
En hvaðan kemur þessi kassi? Uppspretta hans er í ótta við álit annarra! Fyrst þegar þú losnar við óttann við álit annarra munt þú brjótast úr viðjum kassans. Gerðu það sem þú vilt og vertu þú sjálf.
Ef fólki mislíkar það þá er það þeirra eigin ótti sem talar, tökum dæmi:
Sólveig er 35 ára kona sem eignast kærasta sem gerir hana hamingjusama, hún segir vinkonum sínum og fjölskyldu frá honum og hversu hamingjusöm hún er og hversu góður hann er við hana, þau hitta hann einu sinni og álykta út frá því að hann sé “ekki nógu góður fyrir hana.” Hvers vegna er hann ekki nógu góður? “Hann er ekki nógu vel menntaður, ekki í nógu góðri vinnu, ekki með nógu há laun, ekki af nógu góðu fólki, ekki nógu hávaxinn, ekki nógu myndarlegur, ekki í nógu góðu formi, ekki nógu fyndinn, klæðir sig ekki nógu flott..”
Sólveig verður miður sín yfir þessum dómum á manninn sem hún er ástfangin af og gerir hana hamingjusama og ef hún sér ekki að vinkonur hennar og fjölskylda eru í raun að dæma manninn út frá eigin ótta við það sem ekki passar í kassann sem þau hafa smíðað sér þá gæti hún farið að efast um manninn líka og reynt að breyta honum eða fara verða óánægð með hann af ótta við álit annarra.
Svona dæmisaga á við um allt í lífinu, það mun alltaf vera fólk sem finnst þú ekki nógu “góð/ur” í hverju því sem þú gerir, fólk sem hneykslast ef þú ert ekki góður kokkur, ef þú gerðir ekki afmæliskökuna barnsins sjálf frá grunni með óaðfinnanlegum sykurmassaskreytingum, ef þú hefur ekki áhuga að taka þátt í maraþoninu, ef þú átt ekki dýra merkjavöru, ef heimili þitt er ekki alltaf hreint, ef börnin þín taka frekjuköst í Bónus, ef maðurinn þinn verður fullur á árshátíð, ef þú hlærð ekki að bröndurum þeirra..
Þú munt aldrei ná að gera öllum til geðs eða geðjast öllum.
Vitandi það, hvernig væri þá að fara brjóta niður veggina og hindranirnar sem þú hefur byggt í kringum þig og byrja bara að vera þú sjálf?
Að horfast í augu við óttann er það sem gerir þig kjarkaða.
Ekki láta annað fólk segja þér hvað þú getur og hvað þú getur ekki, hverja þú átt að umgangast eða hvernig þú átt að vera. Alvöru vinir taka þér eins og þú ert, þeir sem ekki gera það eru sjálfir búnir að loka sig inn í kassa og þú skalt biðja fyrir að þau muni einn daginn brjóta hann utan af sér og blómstra, þangað til skaltu ekki leyfa þeim að draga þig niður.
Ef þig langar á ballettnámskeið, stirð með aukakíló á miðjum aldri, gerðu það þá bara, ef þér finnst gaman að syngja, farðu þá í kór þó mamma hafi sagt þér að þú værir laglaus. Ef þú ert ekki góður kokkur en átt von á gestum, keyptu þá bara take away eða gerðu “Pálínuboð” úr því, hættu að hugsa um hvað öðrum finnst því hvað öðrum finnst skiptir ekki máli, það er hvað þér finnst og þín líðan sem skiptir máli.
Farðu út og gerðu það sem þig hefur alltaf langað til og leyfðu hjartanu að ráða! Gangi þér vel 🙂
Vala vinnur hjá 66 Norður, er menntaður innkaupastjóri og faglegur ráðgjafi hönnuða í öllu sem snýr að viðskiptum og markaðssetningu. Hún er krabbi, fædd árið 1979 og montin mamma tveggja stráka. Býr í 101.