Þegar við fæðumst er sagt að við séum óskrifað blað. Við erum saklaus, fordómalaus og sjáum hlutina í frekar einföldu ljósi. Við biðjum um það sem okkur langar í, okkur líkar við gott fólk og okkur er illa við þá sem eru slæmir. Við sofum þegar við erum þreytt, borðum þegar við erum svöng og hættum að borða þegar við erum södd.
Svo eldumst við byrjum að borða og drekka til að fylla í tómarúmið frekar en að taka áhættu og láta drauma okkar rætast. Við vinnum yfirvinnu til að borga reikninga og forðast sambönd í stað þess að koma okkur út úr aðstæðunum eða vinna í málunum.
Við leikum leiki, förum í fýlu, eyðum um efni fram, langar í hluti sem okkur vantar ekki og förum of langt fram úr okkur – í raun þá flækjum við hlutina án þess að þurfa þess.
Hér eru nokkur holl ráð…
1. Vaknaðu fyrr og eigðu tíma með sjálfri þér, helltu upp á kaffi, skelltu þér í sturtu til að hressa þig við, lestu blöðin í rólegheitunum og farðu yfir daginn í huganum.
2.Það er gott að venja sig á kvöldið áður að spá hverju þú ætlar að klæðast, taktu svo fötin til svo þú sért ekki á þönum, blótandi orðin of sein í vinnunna.
3. Reyndu að fá 7-8 tíma svefn á hverri nóttu, þá ferðu gegnum daginn með skarpari huga.
4. Einbeittu þér að því að verða betri manneskja.
5. Þrífðu heimili þitt einu sinni í viku, í miðri viku t.d miðviku eða fimmtudag, þá ertu frjáls og laus við þrifin um helgar.
6. Ekki gleyma ættingjunum, kauptu blóm eða bakaðu, heimsóttu, frænku, frænda eða afa og ömmu, hlustaðu á sögur og fáðu góð ráð.
7. Gefðu föt og annað dót í Rauða krossinn sem hafa legið ónotuð inn í skáp í meira en 2 ár.
8. Þegar þú átt í deilum við einhvern, talið út um málið og reynið að sættast. Rifirildi eru oft á misskilningi byggð.
9. Ekki drekka áfengi ef þú ert þreytt, reið eða sorgmædd.
10. Skildu vinnuna eftir í vinnunni. Ekki taka vinnuna með þér heim.
Díana Bjarnadóttir útlitsráðgjafi og stílisti hefur margra ára reynslu við að aðstoða fólk með fataval. Hún starfaði meðal annars á Ítalíu og í London þar sem hún var stílisti stjarnanna hjá Giorgio Armani og Gucci.
Hefur einnig verið búsett í svíþjóð, Hollandi og á Selfossi en býr nú í Reykjavik. Díana er einnig með menntun í förðunarfræði. Greinar og ljósmyndir Díönu hafa m.a. verið birtar í tímaritunum Veggfóður, Ský og Smáralindarblaðinu. Díana er fædd 1. maí og er því naut.