Stella Björt Bergmann var meðal þeirra frábæru penna sem skrifuðu á Pjattið allra fyrstu árin en hún var með okkur alveg frá árinu 2010 (vefurinn fór í loftið 2009). Undanfarin ár hefur snillingurinn starfað sem stílisti og verslunarstjóri í Spúútnik og er þar algjörlega á réttri hillu enda fæddist skvíz með botnlausan áhuga á tísku.
Stella hefur alltaf haft mjög áberandi svalan og persónulegan stíl og það er algjörlega óhætt að fullyrða að hún hefur verið mikill trendsetter hjá tískudísum hér í borg.
„Áhuginn kom sennilega áður en ég byrjaði að tala! – man ekki eftir mér öðruvísi en að spá í fötum og tísku,“ segir Stella þegar ég spyr hana hvenær áhuginn kviknaði.
„Fyrsta orðið mitt var sokkar og ég hef alltaf verið meira fyrir mjúka pakka en harða. Þetta var bara innbyggt í mig frá fæðingu – mamma hefur engan áhuga á tísku svo ekki var það uppeldið!,“ segir Stella.
Hvað varstu gömul þegar þú keyptir þér þína fyrstu flík?
„Ég var 13 ára þegar ég keypti mér mína fyrstu flík og það var beint eftir fyrstu útborgun úr ísbúðinni í Álfheimum. Mig minnir að þetta hafi verið bleikar Adidas buxur.“
Hvað finnst þér gera fyrir það hvernig þér líður? Er hægt að klæða sig í gott skap eða skipta um föt til að líða öðruvísi?
„Já algjörlega! Mér líður til dæmis alltaf miklu betur í kjól og hælum en kósygallanum. Kjólar koma mér alltaf í gott skap! Það er algjört möst að eiga þægilega hæla og góðan blazerjakka. Ég nota það endalaust, bæði dagsdaglega og þegar ég fer eitthvað fínna. Svo get ég ekki farið út úr húsi án þess að vera með eyrnalokka!“
Er einhver flík sem þú hefur notað í mörg ár? Kannski eitthvað sem þú keytir fimmtán ára og ert enn að nota?
„Ég er mjög dugleg að selja fötin mín og endurnýja í fataskápnum. En það eru nokkrar flíkur sem ég mun aldrei losa mig við. Elsta flík sem ég er ennþá að nota er jakki sem voru fyrstu launin mín fyrir stílistavinnu. Hann er orðinn tólf ára gamall.“
Spurð að því hvaða trend séu allra vinsælust í Spúútnik þetta sumarið segir Stella að það séu bolir í yfirstærð, dressaðir við hjólabuxur, skyrtur í pastel litum, hárklemmur, tie dye peysur og jakka:
„En „trench coats“ og jogging gallar eru það vinsælasta hjá okkur núna.“
Spúútnik væbið í sumar…
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.