“Þarf ég nokkuð að nota undirlakk undir rauða naglalakkið?” spurði ég Steinunni í Lyfju Lágmúla.
“Jú, víst þarftu þess, því annars gulna neglurnar undir litaða lakkinu,” sagði Steinunn sem er uppáhaldsafgreiðsludaman mín í þessari verslun.
Hún hefur líka ráðlagt mér, klaufabárðinum, með ótal marga hluti varðandi snyrtivörur og almenna umhirðu sem hæfir dömu. Ég vil nefnilega vera dama en kann ekki öll dömutrixin þannig að sem betur fer hef ég Steinunni til að hjálpa mér að gera “hókus pókus”!
Síðast þegar ég kom til Steinunnar með naglaböndin lafandi niður eftir öllu bað ég hana um gott krem til að ýta þessu upp.
Þegar það var ekki til kenndi hún mér að einfalt ráð væri svona:
“Þú setur smá dropa af olíu eða hárnæringu í heitt vatn. Baðar hendurnar upp úr þessu í svolitla stund og ýtir svo naglaböndunum upp. Fyrst með mjóa enda priksins og svo með breiða endanum. Þá seturðu á þig handáburð til að mýkja hendurnar og alls ekki klippa naglaböndin, bara ýta þeim upp.”
Ég fór heim og gerði þetta á meðan Desperate Housewifes rúllaði í sjónvarpinu og hef eiginlega aldrei fyrr haft svona fínar neglur og naglabönd.
Þetta er ástæðan fyrir því að ég leita alltaf til Steinunnar þegar ég kaupi snyrtivörur og versla alltaf í þessari ákveðnu verslun. Kannski þekkjum við allar eins og eina “Steinunni,” konu sem er virkilega gaman að tala við og ráðleggur okkur alltaf heilt.
Guðrún Gunnarsdóttir er menntuð í viðskiptafræði en hefur lengst af starfað í tískubransanum. Nú rekur hún heildsölu ásamt eiginmanni sínum. Hún er sérlegur unnandi Parísarborgar en þangað fer hún nokkrum sinnum á hverju ári. Guðrún er hrútur, fædd 1976.