Sælar Pjattrófur.
Takk fyrir frábæran vef og góðar greinar. Búin að lesa ykkur síðan 2009 og bara elska Pjattið. Sendi svo loks þetta bréf sem mig hefur lengi langað að koma frá mér. Vona að þær sem sjá sig í þessu hugsi sinn gang aðeins en tilefni mitt er ríkulegt enda slitnaði upp úr vinskapnum að lokum.
Eins miklar vinkonur við konur getum verið og sagt hver annarri allt þá er rígurinn á milli kvenna stundum rosalegur. Samkeppnin á sér engan líka. Ég er ekki að tala um í einhverri íþróttagrein heldur í lífinu sjálfu.
Að eiga góða vinkonu er nefninlega ómetanlegt. Vinkonu sem er ekki í þessari stöðugu samkeppni við þig en að eiga vinkonu sem hefur gert eigið líf að samkeppni við þitt getur verið óbærilegt. Ég hef nefninlega upplifað þetta og það endaði með ósköpum.
Ég var farin að læra á þessa tilteknu vinkonu mína. Ef ég sá eitthvað töff sem mig langaði að kaupa þá mátti ég ekki segja henni frá því, vegna þess að ef ég gerði það þá var hún stokkin af stað og búin að ná sér í dressið, skóna, skartið eða hvað það nú var sem ég hafði séð.
Tökum dæmi að það sé eitthvað sérstakt tilefni framundan og tiltekið dress hafið verið keypt fyrir það. Við vinkonurnar erum að fara saman og hún mætir til mín í nákvæmlega sama dressinu og ég er í þegar ég opna fyrir henni. Ég spring úr reiði og langar bara að reka hana út og hætta við að fara með henni.
Kvöldið algjörlega ónýtt
Auðvitað átti ég að taka þessu sem hrósi fyrir að vera svona agalega smart og smekkleg að hún gat ekki hugsað sér að fara í neitt annað en nákvæmlega það sama og ég valdi mér. Ég átti það stundum til að breyta mínum eigin stíl, algjörlega bara til að hafa frið með mitt og geta verið smart vitandi það að hún myndi ekki ganga svona langt bara til að geta verið eins og ég.
Ég klippti á mér hárið eða litaði og það var eitthvað sem ég vissi að hún myndi aldrei gera. Ég pantaði eitthvað rosa töff af netinu og þagði yfir því og átti þar af leiðandi fatnað sem hún gat ekki nálgast. Skemmtilegast fannst mér að kaupa notuð föt, vintage, því ég vissi að það yrði aldrei hennar stíll.
Mig langaði svo oft að öskra á hana „grow up woman” en ég sat oftast á mér. Það er ekki hægt að eiga góða vinkonu nema það sé gagnkvæm virðing á milli ykkar, enda er ekkert skrýtið að í dag að við erum ekki vinkonur lengur. Oft heyrði ég hvíslað hluti um mig sem hún hafði blaðrað í aðra og oftast voru það lygasögur. Þetta særði mest og finnst mér enn skrýtið að hún skuli ekki hafa fattað hvernig mér leið á þessum tíma. Að þurfa að fela fyrir vinkonu minni ótrúlegustu hluti er ekki beint uppskriftin að heilbrigðum vinskap.
Við verðum að geta treyst vinkonum
Í dag er það óskrifuð regla milli mín og minna vinkvenna að þú reynir ekki við strák/mann sem einhver önnur í hópnum er að spá í. Þú sefur ekki hjá karlmanni sem einhver af vinkonum þínum er búin að sofa hjá. Og fyrir alla muni þú stein heldur kjafti ef þér er treyst fyrir leyndarmáli. Þetta er það sem ég kalla vinkvenna-virðing.
Brjóti einhver þeirra þetta þá fer sú hin sama í straff hjá mér. Sem sagt, henni er ekkert sagt, ekki trúað fyrir neinu og er sett á “ignore status”. Fáir en góðir vinir er það sem skiptir máli. Þú átt ekki að umkringja þig með fólki sem er ekkert nema kannski í það minnsta kunningjar. Fólki sem er sama um þig og ber yfirleitt ekki neina virðingu fyrir þér.
Því miður þá þjást alltof margir af ótrúlegri athyglissýki og umkringja sig með fólki, helst fólki sem er „eitthvað” í þjóðfélaginu af því að það heldur að þá líði því eitthvað betur í sinni minnimáttarkennd.
Það er ekkert eins aðlaðandi og kynþokkafullt og kona sem getur verið ein, setið ein á kaffihúsi, farið ein og labbað Laugaveginn til að sýna sig og sjá aðra og staðið bein í baki með bros á vör og fullt hjarta af sjálfstrausti þegar hún kemur inn á kaffihúsið.
Það er kona sem veit hver hún er. Þannig vinkonur vil ég eiga. Þannig kona vil ég vera.
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.