Sælar Pjattrófur. Mér datt í hug að senda ykkur þetta bréf í framhaldi af að hafa lesið bréfið hennar Sigrúnar en mig langar að segja frá hinni hliðinni. Hvernig ég upplifði það að vera skilnaðarbarn og síðar stjúpdóttir.
Ég var frekar ung þegar foreldrar mínir ákváðu að fara hvor sína leið. Sú ákvörðun var mjög góð og algjörlega okkur þremur í hag. Ég átti mjög gott samband við föður minn, við vorum miklir mátar og hann var mín mesta fyrirmynd.
Ég var yfirleitt frekar kátt og meðfærilegt barn, þó ég segi sjálf frá. Þar af leiðandi þegar ég kynntist stjúpu minni tók ég henni opnum örmum og varð fljótlega mjög hænd að henni. Við urðum góðar vinkonur og brölluðum ýmislegt saman…
..því var það eins og heimurinn snérist gjörsamlega við þegar systir mín kom í heiminn, dóttir föður míns og stjúpu. Það urðu breytingar á mínu lífi eins og gengur og gerist í lífi allra þegar nýtt barn fæðist inní fjölskyldu. Málið er að líf mitt breyttist all verulega og til hins verra. Ég missti fljótt þetta sérstaka og mikilvæga samband við föður minn sem að þróaðist síðan seinna meir í algjört sambandsleysi við hann svo árum skipti.
Ég tók t.d. tímabil þar sem ég ældi öllum mat því stjúpa mín hafði sagt við föður minn að ég borðaði of mikið, svo langt gekk ég til að ganga í augun á þeim og reyna að vera fullkomin.
Vegna vanrækslu þeirra á mér fann ég fyrir mikilli höfnunartilfinningu sem litaði mína barnæsku og unglingsár.
Ég lagði mig fram um að vera alltaf með “tip-topp” einkunnir og bókstaflega standa mig eins vel og ég gat í öllu sem ég tók mér fyrir hendur. Ég tók t.d. tímabil þar sem ég ældi öllum mat því stjúpa mín hafði sagt við föður minn að ég borðaði of mikið, svo langt gekk ég til að ganga í augun á þeim og reyna að vera fullkomin.
Ég gæti auðveldlega litið á mig sem fórnarlamb og týnt til hitt og þetta sem átti sér stað í samskiptum mínum við föður minn og stjúpu en kýs að gera það ekki. Því fyrir nokkru ákvað ég að sleppa taki á fortíðinni og nýta þessa reynslu til að gera mig að sterkari manneskju.
Til ykkar sem hafa gengið eða eruð að ganga í gegnum eitthvað svipað:
Margir í kringum mig skilja ekki hvernig ég gat á endanum fyrirgefið þeim. Það sem ég hef komist að er að fyrirgefning er frelsandi og að biturleiki hefur mest og verst áhrif á okkur sjálf.
… en aftur á móti finnst mér ekki rétt að þvinga fram fyrirgefningu. Hún á að koma þegar þið eruð tilbúin að gefa hana svo það er ekkert að því að leyfa sér að finna fyrir reiði, sorg og gremju.
Takk fyrir bréfið þitt Sigrún og takk Pjattrófur fyrir að birta mitt.
Kv. Elísabet
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.