Í kjölfar umræðna um afskiptalausa feður sem vilja ekki börnin sín hef ég verið hugsi undanfarna daga.
Þegar tveir einstaklingar stunda kynlíf saman bera báðir jafn mikla ábyrgð á því og hljóta að vita að hvort sem verjur eru notaðar eða ekki er alltaf sá möguleiki fyrir hendi að getnaður eigi sér stað. Þennan séns taka allir sem stunda kynlíf.
Það að ákveða að eiga barn er ákvörðun um að taka ábyrgð.
Það að fara í fóstureyðingu er einnig ákvörðun um að taka ábyrgð.
Það að fóstur verði til í kviði konu gefur konu mikið vald. Í raun getur kona tekið hvaða ákvörðun sem henni sýnist varðandi framhaldið óháð því hvað karlinum finnst. Svona er þetta og kemur alltaf til með að vera.
Mér þykir það ógeðfellt þegar ég sé menn nota valdbeitingu og kúga konur. Mér þykir það einnig ógeðfellt þegar ég sé konur nota valdbeitingu og kúga karla. Þetta á við um allskyns aðstæður sem komið geta upp í okkar tilveru og ein af þeim er einmitt eftir að getnaður á sér stað.
Í ljósi umræðunnar langar mig að segja mína sögu:
Ég var 22 ára og nýbyrjuð í háskólanámi. Ég átti kærasta sem var á sama aldri og einnig að byrja í háskóla. Við bjuggum heima hjá foreldrum mínum á þessum tíma og lífið var ágætt.
Það kom á daginn að í eitt skipti klikkaði getnaðarvörnin. Ég fór í apótek og var búin að gleypa neyðarpilluna klukkustund síðar. Ég kastaði henni ekki upp heldur fór að sofa og hugsaði með mér að ég væri heppin að búa í landi þar sem ég hefði þennan kost ef upp kæmi atvik sem þetta. Aldrei fyrr hafði ég lent í því að eitthvað klikkaði og þótti því gott að geta verið við stjórn þegar það gerðist.
Ég var heldur betur ekki við stjórn. Tveimur vikum síðar byrjuðu ekki blæðingar og leiðin lá í apótek til að ganga úr skugga um að þetta væri nú örugglega bara stress-ég tók nú einu sinni neyðarpilluna…Tvö strik og ég held að ég hafi sjaldan verið jafn hissa. Var ég ólétt?
Við tók undarlegur dagur. Þetta hafði ekki verið á dagskrá hjá okkur og kom kærastanum í opna skjöldu. Hann sagðist ekki vilja eignast barn strax, við hefðum gert allt sem við gátum til að koma í veg fyrir þessar aðstæður og var miður sín. Við ræddum saman nokkrum sinnum næstu daga en náðum þó aldrei að ræða möguleikann um að eignast barnið -það var ekki inni í myndinni hjá honum.
Ég var sár. Ég var með barn inni í mér. Mér þótti eiginlega strax vænt um það þó mig hefði ekki langað að verða ólétt. Ég áttaði mig hins vegar á því að þannig er mannslíkaminn fullkominn-líkami konunnar þráir barnið og gerir allt til að eiga það og verja það. Hugurinn er hluti af öllu kerfinu og ég þurfti að ná djúpa andanum til að geta tekið ákvörðun í þessari erfiðu stöðu og áttað mig á því hvað ég raunverulega vildi gera.
Vinkona mín reiddist vegna viðbragða kærastans og sagði hluti eins og: ,,þetta er þitt barn!” ,,þetta er þinn líkami”.
Þetta vissi ég. En eitt vissi ég líka: þetta var og yrði líka hans barn. Og alveg jafn mikið.
Ég hafði val. Hann hafði í raun ekkert val. Hann gat aðeins sagt hvað honum fannst og hvernig honum leið og vonað svo að ég kæmist að sömu niðurstöðu og hann. Svo beið hann frétta af eigin framtíð.
Það sem ég yrði snarvitlaus ef einn maður tæki svona stóra ákvörðun fyrir mig upp á eigin spýtur -ef barnið væri í hans líkama. Ég hafði vald sem ég ætlaði mér aldrei að nota gegn honum. Hann var besti vinur minn og maður sem ég bar virðingu fyrir.
Ég grét og fannst hann ósanngjarn. Ég hef samt aldrei búið yfir hefnigirni, valdaþrá eða þörf fyrir að stjórna öðrum. Ég áttaði mig nefninlega á því að það er mikil ábyrgð fólgin í því að ákveða að ala upp barn upp á eigin spýtur. Margir gera það-en langaði mig það? Aðstæður fólks og langanir eru misjafnar og mig langaði ekki að ala upp barn ein. Mörgum gæti fundist að ég hafi látið kúga mig og hefði átt að standa á mínum rétti og svo framvegis. Málið er bara að afstaða hans hafði áhrif á afstöðu mína – sem mér þykir eðlilegt án þess að nokkur meðvirkni komi þar til. Vinkonur mínar sögðu: ,,Hann mun elska barnið þegar það er komið”. -Er það ekki alveg hreint frábært?!
Ég sá engan tilgang eða kærleik í því að stappa niður fótum og segja ,,Jú, víst, sama hvað þér finnst”. Ég vildi geta barn í kærleik og vinsemd þar sem báðir aðilar eru saman í liði og hafa sömu langanir, vilja bera ábyrgð á þessari stórkostlegu ákvörðun og á barninu sem verður alvöru manneskja en ekki bara hugmynd um krúttilegt barn með bollukinnar. Ég vil gera þetta með einhverjum sem ég veit að tekur með mér slaginn – og langar til þess.
Menn sem vilja láta eyða fóstri eru ekki illir menn frekar en konur sem vilja láta eyða fóstri. Þeim virðist bara alls ekki leyfast að hafa skoðun á þessu, þá verður allt vitlaust. Hvaða kúgun er það? Er ekki svolítið fátækt og um leið grimmt að nota fóstur í móðurkviði sem vald?
Er ekki um að gera að allavega ræða málin og hugsa hvaða niðurstöðu maður virkilega þráir? Ef niðurstaðan verður sú að konan ákveður að eiga barnið án mannsins þá þarf hún líka að taka ábyrgð á einmitt þeirri ákvörðun. Hún er ein – hún velur að vera ein og þá finnst mér að takmarkað megi kvarta yfir þeirri stöðu að vera ein að ala upp barn. Við berum jú, ábyrgð á okkur sjálfum sem fullorðið fólk og erum ekki fórnarlömb aðstæðna sem við kjósum sjálf.
Ég fór í fóstureyðingu og ákvað það sjálf út frá þeim spilum sem ég hafði á hendi. Vinkonur mínar spurðu mig oft hvort það hefði ekki verið erfitt og hvort ég sæi ekki eftir því… hvort ég hugsaði ekki oft að nú hefði barnið orðið 5 ára o.s.fr.v. Svör mín eru alltaf eins. Nei. Ég tók ákvörðun og ég tek ábyrgð. Ég kýs einnig að vera ekki fórnarlamb í mínu eigin lífi sem fullorðin einstaklingur.
Það eru alltaf fleiri en ein hlið og auðvitað óteljandi dæmisögur. Auðvitað vegur ákvörðun konunnar þyngst eðli málsins samkvæmt en skiptir ekki gríðarlegu máli á hvaða forsendum sú ákvörðun er tekin – framtíðar barnsins vegna?
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.