Sælar Pjattrófur. Ég heiti Ólöf og vil deila með ykkur reynslu sem ég varð fyrir nýlega á ljósmyndastofu við Hlemm.
Ég er 35 ára kona. Mér fannst mig vanta almenninlega mynd í feriskránna mína vegna þess að þessar útklipptu heimatilbúnu myndir hafa greinilega ekki verið að gera sig. Ég myndast yfirleitt ekki vel og ákvað að splæsa á mig myndatöku!
Ég fór á ljósmyndastofuna við Hlemm og komst strax að. Fyrst um sinn var ég stíf, svona eins og vanalega og vissi ekki alveg hvernig ég ætti að vera. Ég var íklædd jakka yfir svartan langerma bol. Ljósmyndarinn virtist vinsamlegur og reyndi að hjálpa mér að slaka á. Sagði mér að snúa svona og hinseginn og brosa, bað um “fallega brosið” o.s.frv. Síðan bað hann mig um að fara úr jakkanum. Ég var alveg til í það enda vildi ég fá sem besta mynd og tilbúin til þess að prófa mismunandi hluti til þess að fá það fram.
Maðurinn segir mér að reyna að slaka betur á, að kannski þurfum við að leika okkur smá áður en við náum góðri mynd. Mér leist vel á það. Svo prófum við þetta sjónarhorn og hitt. Allt í einu kemur hann til mín og segir: “Prófaðu að draga niður peysuna hérna við öxlina, við þurfum að leika okkur aðeins, þú þarft að slaka á.”
Ég var náttúrulega pínulítið hissa en þar sem ég vissi upp á mig sökina að vera stíf og kjánaleg svaraði ég bara frekar hissa: “Ha? Draga niður peysuna?” Maðurinn sagði: “Já við erum bara að leika okkur aðeins, þú þarft bara að vera afslappaðari til þess að við getum náð sem bestri mynd”.
Það sem mér finnst skrítið eftir á er að ég gerði það! Ég dró niður peysuna, beraði á mér öxlina og brosti í myndavélina. Hann smellti af nokkrum sinnum. Ég minnti hann á að mig vantaði bara mynd fyrir ferilskrá. Hann hélt bara áfram að segja að við værum bara að leika okkur og ég yrði að slaka á og blah, blah, blah… En var samt hættur að mynda og fór í tölvuna að skoða árangurinn.
Myndirnar voru flestar lélegar, þarna voru kannski ein eða tvær nothæfar og svo axlarmyndin fallega. Alveg 80’s erótísk og hallærisleg.
Komdu aftur og með eitthvað flegnara
Hann lagaði þessar tvær í tölvunni sem mér leist best á. Á meðan hann geri það talaði hann um að hann hefði fengið til sín yfir 600 flugfreyjur í myndatöku og þær kæmu til hans á hverju ári. (Þvílík fengitíð!!). Hann talaði um hversu mikilvægt væri að vera ekki í svörtu í svona myndatökum (ég var í svörtum langerma bol) og sagði líka að ýmis munstur eða aðeins flegið væri vænlegt til þess að draga fram línur og fegurð kvenna í myndatökum. Hann bauð mér líka að koma aftur seinna og að ef ég kæmi innan mánaðar fengi ég fleiri myndir fyrir aðeins 1000 krónur. Hann benti á að þá gæti ég komið með mér nokkra mismunandi “toppa”! Hann sagði líka: “Sjáðu hvað þú ert í raun og veru falleg, þú gætir komið aftur og tekið með þér til dæmis eitthvað flegnara.”
Ef mér hefði liðið vel hjá honum hefði ég beðið hann að smella af nokkrum í viðbót (þar sem ég var ekki beint ánægð með útkomu myndanna nema þessa einu eða tvær sem virtust nothæfar) en ég gerði það ekki. Ég hlakkaði til að komast út af stofunni.
Brosandi og kurteis þakkaði ég fyrir mig, borgaði og fór en mér leið skringilega með þetta allt. Hvernig hafði karlinn fengið mig til þess að bera á mér öxlina? Afhverju tók hann ekki fleiri myndir eftir að ná “axlarskotinu góða” ef leikurinn var til þess gerður að fá mig til þess að slaka á, til þess að ná betri mynd? Og afhverju sagði hann mér ekki bara að anda, hreyfa mig eða annað sem er eðlilegt að gera til þess að ná afslöppun? Er ég virkilega svona mikill kjáni fullorðin manneskjan? Ég náði ekki alveg að hugsa mig um, bara gerði það sem hann sagði.
Ég fer nánast aldrei í myndatökur og er ekki vön svona aðstæðum en eitt er víst að ekki var um að ræða eitthvað skemmtilegt samspil okkar í milli. Þetta var bara hann. Hvar liggja mörkin hjá okkur konum? Hvað myndi fólki finnast ef kvenljósmyndari hefði fengið karl til þess að gera eitthvað svona, t.d. að hneppa frá skyrtunni til þess að “slaka betur á”. Til þess að ná mynd í ferilskrá sína!
Eitt er víst að mér finnst fáránlegt að hafa “lent í þessu” og vil vekja á þessu athygli. Kæru Pjattrófur er ekki lag að vara fólk við því að senda dætur sínar í passaljósmyndatöku á Hlemmi?
Kveðja, Ólöf.
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.