Pjattinu barst þetta bráðfyndna lesendabréf í morgun. Talandi um fyrstaheimsvandamál, … ha? Sitt sýnist hverjum. Væri gaman að vita hvort þú ert sammála eða ósammála sendanda bréfsins. Eru heilgallar úr flísi viðeigandi í verslunarferðum? Við ræðum málin á FB síðunni.
Það er nú ekki frásögur færandi en ég þurfti út í matvöruverslun til að kaupa eitthvað gotterí í ísskápinn minn.
Ömmustrákurinn var nefnilega að koma og gista hjá mér og það eiga allar almennilegar ömmur alltaf eitthvað gott og spennandi í skápum og ísskápum. Ég renni út í Krónu, næ mér í körfu og rölti um verslunina, tíni eitt og annað í körfuna. Ég er þannig gerð að ég skoða mikið fólk þegar ég fer á ferðina, spái í fötunum og lít alltaf á skó hjá konum og körlum líka.
Í þessari innkaupaferð minni fékk ég nett áfall. Ég eiginlega trúði ekki mínum eigin augum.
Það voru þarna hjón og ég gat ekki betur séð en þau væri á mínum aldri. Fjörtíu plús. Ég sá fyrst aftan á þau og átti von á að þetta væri ungt par, svona fimmtán ára, að vera sæt saman í búðinni að versla því þau voru eins klædd. Skórnir voru strigaskór frá Converse sem er sko alveg í lagi en restin var algjörlega það hryllilegasta sem ég gæti hugsað mér.
Þau voru í bómullar samfestingum með hettu og rennilás að framan, báðir gráir með hvítu munstri. Þegar ég sá loksins framan í þau og fattaði að þetta var ekki ungt par bara að vera kjút saman að þá varð mér allri lokið.
Ég fer oft sjálf út í búð í íþróttabuxum og síðri peysu en ég geng ekki lengra en það. Ávallt smá make up og gloss og þá er maður nú ágætlega frambærilegur ef t.d maður rækist á einhvern sem maður þekkir. Maður þarf jú aðeins að hafa fyrir þessu.
Í dag eru liðnir nokkrir dagar frá því ég sá þessi hjón í versluninni og ég er ennþá að hugsa um þau. Hvað fær fólk til að kaupa þennan klæðnað og fara út úr húsi í honum í þokkabót?
Ég sé svona samfesting sem kósý heimagalla þar sem enginn sér þig og þú ert bara að láta þér líða vel. Ég veit að núna er einhver að lesa og hrista hausinn yfir því hversu snobbuð ég er og allt það en ég er alls ekki snobbuð, þvert á móti!
– En það er ákveðin lína sem bara ætti ekki að fara yfir og fólk ætti að spá betur í því. Hafa smá standard!
Nóg með það, þau eru eflaust bara rosalega ánægð í eigin skinni og sérlega samrýnd sem er hið besta mál og væntanlega elska hvort annað skilyrðislaust.
En elskurnar, viljið þið samt hugsa aðeins áður en gengið er út um útidyrnar, líta í spegil og reyna að vera svolítið sæt og smart. Það er svo auðvelt.
Kveðja og takk fyrir jákvæðan og skemmtilegan vef, Guðrún ÓlöfFjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.