Kæru Pjattrófur. Ég las bréf hér um daginn sem fékk mig til að langa að losa um eitthvað í sjálfri mér. Hugsanir sem ég hef ekki beint í neinn farveg fyrr en nú. Mig langar að segja ykkur frá reynslu minni sem móður, stjúpmóður og eiginkonu.
Við maðurinn minn áttum börn fyrir þegar við kynntumst, hann tvö og ég tvö. Svo eignuðumst við eitt barn saman og það hefur sannarlega gengið á ýmsu síðan við blönduðum fjölskyldum okkar svona saman og gerðum að einni stórri.
En það sem er erfiðast í okkar tilfelli er blóðmóðir barnanna hans. Hún virðist gera allt sem hún getur til að eyðileggja sambandið milli mín og barnanna þeirra.
Mega ekki tala við mig, stjúpuna
Í okkar tilfelli er það þannig að hún leyfir börnunum ekki að tala við mig í síma eða hafa nein samskipti milli þess sem þeir eru hjá okkur eða henni. Þau búa erlendis og því er mikið um símtöl og skype en hún lokar á allt ef hún verður þess vör að ég tali við börnin. Þetta skapar óneitanlega mikil leiðindi. Börnin verða ringluð á þessari framkomu, skilja ekki að þau megi tala við mig, búa hjá mér, fara með mér í bíó, leikhús, heimsóknir og annað þegar þau eru hjá mér en alls ekki tala við mig þess á milli.
Þegar krakkarnir koma til okkar lýsa þau yfir að mamma þeirra segi að við maðurinn minn séum vondar manneskjur og við viljum ekki hafa þau (börnin) hjá okkur. Hún segir þeim að við viljum bara “okkar” börn. Þau sem búa hjá okkur en að okkur sé sama um hin, semsagt börnin hans.
Ekki láta börnin þjást
Það sem ég vil benda á með þessu litla bréfi er að það er óskaplega sárt þegar börnin eru látin þjást fyrir reiði og pirring foreldra sinna. Sárt þegar þau fá ekki tækifæri til að eiga eðlileg samskipti við foreldra sinna og stjúpforeldra. Tækifæri til að eiga fólk að sem elskar það og vill allt það besta fyrir þau. Tækifæri til að lifa lífinu án þess að hatri og lygi sé troðið upp á þau þegar þau eru alltof ung til að skilja slíka hegðun.
Höfum hana góða
Það tipla allir á tánum í kringum blóðmóðurina, til að hafa hana góða og svo hún “leyfi” börnunum að hafa samskipti við fólkið sitt hér á Íslandi. Allir segja já og amen þegar hún segir að börnin komi á þessum eða hinum tímanum og hversu lengi börnin verða í það og það skiptið. Það eru engir samningar í boði hjá henni, engin eðlileg samtöl um hvernig best sé að haga hlutunum fyrir báðar fjölskyldurnar og börnin. Bara hvað hentar henni og hennar fjölskyldu best. Því ef fjölskyldan kvartar við hana eða reynir að rökræða eitthvað þá er svarið yfirleitt “Þá fáið þið ekki börnin!” það er skellt á og ekki svarað síma, emailum eða öðrum boðum í margar vikur.
Mikið vildi ég óska þess að fólk hugsaði sig tvisvar, þrisvar og jafnvel fjórum sinnum áður en það notar börnin sín sem vopn! Hugsum um börnin fyrst og fremst! Annað skiptir nákvæmlega engu máli!
Takk fyrir að leyfa mér að deila þessu með ykkur,
Kveðja Sigrún
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.