Af og til gerist eitthvað sem á alls ekki að gerast. Atburðarás tekur óvænta stefnu og þú ræður ekki við neitt. Það sem þú gerðir engan veginn ráð fyrir að kæmi nokkurn tímann fyrir er allt í einu orðið að veruleika. Allt er orðið svart og ljótt – heimurinn er grimmur – þú ert skítugri en drullan á götunni.
Hvað gerðist! Hvers vegna? Hvers vegna ég? Hvernig gat ég verið svona vitlaus?
Þú ferð af stað full tilhlökkunar um spennandi helgi, þið vinkonurnar eruð búnar að skipuleggja ferðina í margar vikur. Allt er klárt. Þið komnar á staðinn. Allt í fullum gangi og allir hressir og kátir. Fullt af skemmtilegu fólki. Maður þarf ekkert að þekkja alla, maður bara kynnist nýju fólki. Allir eru svo vinalegir og vilja endilega hafa ykkur með. Það er bara eins og þið hafið alltaf þekkst.
Af hverju er þá allt orðið svart núna? Hvernig gat skemmtunin breyst í martröð?
Þú ætlaðir bara að skreppa aðeins frá. Frá hinum – hinum sem þú varst búin að lofa bæði sjálfri þér og þeim að fara ekki frá – en eins og maður geti ekki farið ein í smá labb. Maður er nú ekkert smábarn. Þú varst líka orðin svöng, var það ekki, ætlaðir að ná þér í eitthvað að borða.
Hvað gerðist eiginlega?
Og hvað nú? Þú getur ekki sagt þeim frá þessu heima. Það yrði allt vitlaust:
„Þú svona heimsk og vitlaus! Þú af öllum! Einn – eða margir? Veistu hver – eða hverjir? Veistu bara alls ekki neitt? Ertu algjör drusla?“
…
Hvað ætlar þú að gera ef þessar línur hér að ofan klingja viðkvæmum bjöllum hjá þér?
• Þú ert ekki sú seka heldur sá eða þeir sem beittu þig ofbeldi.
• Þú ert hvorki heimsk né drusla, sá sem beitir aðra ofbeldi er heimski aðilinn sem hugsar aðeins um sjálfan sig og tekur aldrei tillit til annarra.
• Þú þarft ekki að skammast þín, þú þarft ekki að fela sársaukann.
• Þú þarft að leita þér hjálpar til að yfirvinna sárindin.
• Þú þarft að tilkynna ofbeldið, hvort heldur sem þú veist hver var að verki eða ekki.
• Þú þarft að kæra ofbeldi sem þú verður fyrir – annars heldur ofbeldið áfram gagnvart öðrum.
• Þú þarft að fá aðhlynningu, stuðning, skilning og hjálp til að endurheimta lífsgleðina.
• Þú átt líkama þinn. Það hefur enginn leyfi til að ráðast á hann.
• Þetta er þitt líf. Ekki leyfa öðrum að skemma það meira fyrir þér en orðið er, fáðu hjálp til að endurheimta frelsið til að njóta lífsins.
Vertu sterk, þú getur það!
Með kveðju, Jóna Björg Sætran, markþjálfi www.blomstradu.isJóna Björg er menntunarfræðingur, M.Ed., frá KHÍ, er með alþjóðlega vottun sem ACC markþjálfi frá ICF (International Coach Federation) og er einnig Feng Shui ráðgjafi.
Í vetur hefur Jóna Björg svo lagt stund á Hugræna atferlismeðferð (HAM) í Endurmenntun HÍ. Jóna Björg starfar sjálfstætt við einkaleiðsögn, námskeiðahald, ritstörf, fyrirlestra og ráðgjöf jafnt hjá einstaklingum og fyrirtækjum. Hún var leiðbeinandi hjá Brian Tracy International hér á landi og er fyrrverandi námstjóri hjá menntamálaráðuneytinu.
Jóna Björg fer ótroðnar slóðir, elskar að takast á við krefjandi verkefni og finnst langmest gefandi að vinna með fólki að bættri líðan, meiri hamingju og hugrró.
Einkunnarorð hennar eru: Blómstraðu í einkalífi og starfi, njóttu þess að vera þú!