Í Norræna húsinu er um þessar mundir matarleikhússýning sem heitir Völuspá. Sýningin byggist á fornum textum Völuspár og norænni matarmenningu.
Þetta er einstök sýning og vel útfærð í alla staði. Það eru aðeins 24 manns sem komast inn á hverja sýningu og ég var svo heppin að vera ein af þeim. Strax við innganginn er vel tekið á móti gestum og þeir eru leiddir rólega inn í annan heim.
Það eru fimm aðalsenur í sýningunni.
- Sú fyrsta leiðir áhorfendur inn í heiminn sem þeir eru í þann mund að upplifa og Óðinn kemur við sögu.
- Í annarri senu hitta áhorfendur fyrir Urði, norn fortíðarinnar, sem miðlar vitneskju sinni m.a. um fyrsta mannfólkið Ask og Emblu.
- Þriðja senan er um nútíðina, þekkingu og reynslu, þar sem Loki skemmtir áhorfendum.
- Sú fjórða fjallar svo um Ragnarök þar sem áhorfendur eru leiddir inn í undirheima. Þar kemur fyrir norn nútíðar, Verðandi.
- Fimmta senan fjallar svo um sköpun nýrrar veraldar og þar er einmitt norn framtíðarinnar, Skuld.
Upplifunin var mjög góð og maður fann blæbrigði ótta, dulúðar, húmors, nautnar og gleði. Einnig var maturinn viðeigandi sýningunni, svolítið framandi eins og heimurinn sem áhorfendur voru leiddir inn í og mjööög góður.
Mér leið vel allan tímann og varð aldrei óörugg á meðan ég var leidd í gegnum sýninguna. Það var gott jafnvægi á milli þess að vera leidd áfram og fá rými til þess að upplifa. Mér fannst heldur aldrei sem mér væri ýtt áfram, heldur leið þetta þægilega. Ekki of hratt og ekki of hægt. Ég bjóst reyndar allt eins við því að fá einn og einn aulahroll á svona rosalega listrænni sýningu en það gerðist ekki. Ég naut allan tímann hverrar þeirrar upplifunnar sem mér var boðið upp á og það var heldur ekki lítið. Þetta er einfaldlega virkilega faglega unnin sýning þar sem öll skilningarvitin eru örvuð. Bragð, lykt, sjón, heyrn og tilfinning eru látin spila saman. Sem sagt algjört “Total leikhús” (leikhús fyrir öll skilningarvitin).
Mímí leiddi mig áfram
Um leið er leikverkið “Site specific”, því áhorfendur eru leiddir um Norræna húsið, þar sem hvert rými öðlast nýja merkingu. Mér fannst mjög gaman hve vel tókst til að leiða áhorfendur áfram. Aðstoðarkonurnar sem allar voru kallaðar Mímí, stóðu sig vel í því að leiða áhorfendur á nærgætan á þægilegan máta. Það eru ungar leikkonur útskrifaðar úr Kvikmyndaskóla Íslands sem sjá um hlutverkin. Það eru einnig andar sem leiða áhorfendur, það eru andar reynslu og sakleysis sem eru túlkuð af Þórunni Magneu Magnúsdóttur og Sölku Hlín Jóhannsdóttur.
Reynslumikið leikhúsfólk
Að sýningunni standa frændur okkar danir sem eru öll reynslumikið leikhúsfólk. Dorte Holbæk er sviðshönnuður og gjörningalistamaður sem vinnur á mótum lista, innsetninga og búningahönnunar. Hún hefur hannað fjölmargar sviðsetningar og tekst vel upp í þessari sýningu. Sviðmyndirnar voru allar listaverk. Dorte hefur m.a. unnið fyrir Konunglega leikhúsið í Kaupmannahöfn, er með eigin gjörningahóp sem heitir Scandinavian art sanitorum og hefur einnig gegnt hlutverki sem helgisiðameistari náttúrunnar í Danmörku þar sem hún skírir, giftir o.fl.
Mette Sia Martinusen er matreiðslumeistari og vinnur að nýskapandi veitingum og vinnur með matinn með hvert smáatriði í huga. Hún hefur unnið við Madeleines Madtheater í áraraðir. Hér er hún í samstarfi við Gunnar Karl Gíslason matreiðslumeistara Dill. Dill var tilnefnt árið 2010 sem besta veitingahús Norðurlanda.
Alette Scavenius er dramatúrg og hefur unnið með asískar leikhúshefðir ásamt því að hafa verið dagkrárstjóri við Konunglega leikhúsið í Kaupmannahöfn. Leikstjórn er í höndum Martins Tulinius sem er listrænn stjórnandi í Theater Reublique, sem er eitt framsæknasta leikhúsið í Kaupmannhöfn um þessar mundir. Einnig fer með hlutverk Loka leikarinn Morten Buriam sem hefur tvisvar hlotið Reumert fyrir leik sinn.
Loksins er hægt að fara í matarleikhús á Íslandi
Þetta er vel heppnuð sýning sem hefur verið unnið að í langan tíma. Á vissan hátt má segja að maður hafi upplifað sýninguna í gegnum magann. Ef þú vilt eiga heillandi kvöldstund og hlægja svolítið ásamt því að vera vakin til umhugsunnar, þá er þetta kvöldstundin sem þú hefur beðið eftir að eiga… Algjör veisla!
Hér er tengill þar sem ég kynnti sýninguna um daginn en Nánari upplýsingar er að fá á www.norrænahusid.is og miðar eru seldir á www.midi.is
Verkið verður flutt dagana 23.október til 2. nóvember og ég mæli með því að fólk skelli sér á þessa miklu upplifun, því hér er á ferð sýning í algjörum sérflokki.
Eva er menntuð sem sviðslistakona úr Fræði og framkvæmd frá Listaháskóla Íslands og menningarmiðlari úr Hagnýtri menningarmiðlun frá Háskóla Íslands. Eva er líka mikill fagurkeri enda fædd í vogarmerkinu.