Ég var svo heppin að komast á leikhús frumsýningu með unganum mínum um helgina sem leið.
Leikritið sem við sáum heitir Umhverfis jörðina á 80 dögum og er sýnt í Þjóðleikhúsinu.
Verkið er eftir Sigurð Sigurjónsson og er byggt á hinni þekktu bók eftir Jules Vernes.
Ég las þessa bók á sínum tíma, eflaust nokkrum sinnum því ég las allar bækur oftar en einu sinni en ég mundi samt ekkert úr henni. Það kom samt ekkert að sök því sagan leiðir mann áfram gegnum hin ýmsu lönd heimsins.
Aðalpersónurnar í sögunni eru þrjár. Fílías Fogg sjálfur, breskur fram í fingur góma og stífur eftir því og er hann leikinn af Sigurði Sigurjónssyni. Þjónninn hans, Passepartout, er franskur matmaður sem leikinn er af Erni Árnasyni og eru nokkur óborganleg atriði þar sem hann er að gretta sig yfir stífninni í Fílíasi. Síðan er það lögreglumaðurinn Fix sem er jafn breskur og Fogg og ekki minna stífur. Hann er leikinn af Karli Ágústi Úlfssyni sem leikur einnig fleiri hlutverk. Saman mynda þeir skemmtilegt þríeyki.
Ólafía Hrönn leikur helsta kvenhlutverkið ásamt öðrum hlutverkum og síðan eru Baldur Ragnarsson og Stella Björk Hilmarsdóttir í minni hlutverkum. Verð samt að segja að mér fannst Stella Björk algjörlega óborganleg sem indverska kýrin.
Brúður koma við sögu svo sem Viktoría Bretadrotting, Freud að uppgötva Ödipusarduldina, Van Gogh og fleiri. Hin heilaga kýr Indlands vaggaði um sviðið og svo mætti lengi telja. Persónurnar eru mjög eftirminnilegar og skemmtilegar.
Þetta er söngleikur og því eðlilega mikið um söng og tónlistaratriði. Tónlistin fylgir alltaf því landi sem Fílias Fogg er staddur í hverju sinni. Þannig eru hljóðfæri frá Kína þegar hann er í Hong Kong, trommur í Japan, viðeigandi hljóðfæri í Indlandi og svo framvegis. Um tónlistarflutning sjá þeir Jón Stefán Sigurðsson og Gunnar Ben.
Sviðið fannst mér skemmtilegt, hvernig unnið var með muni úr hverju landi og þannig fanga hverja borg fyrir sig. Eltingarleikir og slagsmál í anda gömlu svarthvítu bíómyndanna fannst mér heppnast sérlega vel og setja þannig söguna af stað í byrjun.
Niðurstaða
Við mæðgur skemmtum okkur konunglega. Hlógum mikið og ekki endilega á sömu stöðum enda önnur níu ára og hin eitthvað aðeins eldri. Við ræddum leikritið á leiðinni heim og veltum fyrir okkur hvað við ættum að gefa í stjörnugjöf. Fjórar eða jafnvel fjórar og hálfa stjörnu og á endanum sættum við okkur á fjórar og hálfa því þetta verk hefur einmitt það sem við erum að leita að í leikhúsi: Skemmtilegur leikur, tónlist, grín og flott sviðsmynd. Hún nefndi sérstaklega hvað henni fannst fíllinn flottur og þar er ég sammála. Allir í leikhús með krakkana!
[usr 4.5]
Myndir eru úr leikskrá og eru myndirnar teknar af Herði Sveinssyni.
Anna Kristín Halldórsdóttir er með fimm háskólagráður (án gríns) og hefur m.a áhuga á ljósmyndum, tölvum, fötum og bókum. Hún býr í Hafnarfirði ásamt yndislegri dóttur sem fædd er í Kína og hressum hundi sem elskar útiveru.