Leikritið Svanir skilja ekki er í sýningu í Kassa Þjóðleikshússins þessa dagana.
Verkið er eftir Auði Övu Ólafsdóttur og skartar þeim Baldri Trausta Hreinssyni, Margréti Vilhjámsdóttur og Ólafíu Hrönn Jónsdóttur í aðalhlutverkum.
Mér fannst verkið hreint út sagt dásamlega skemmtilegt en tel einnig afar líklegt að aðrir í salnum hafi verið mér sammála því hlátrasköllin glumdu. Konan við hliðina á mér þurfti nánast skyndihjálp á tímabili svo mikið hló hún.
Það sem upphaflega dró mig að verkinu er Margrét Vilhjálmsdóttir, mín uppáhalds íslenska leikkona og einfaldlega gyðja í mínum augum. Mögulega undirliggjandi ástæða þess að ég lita mig rauðhærða í sífellu. Nei, ég ætla ekkert að skafa af því. Allt síðan ég sá hana í kvikmyndinni Mávahlátur fyrir mörgum árum síðan hef ég elskað hana, ákaft og innilega.
Ég sá hana einmitt á Hamborgarabúllunni fyrir stuttu. Mér leið svona eins og eðlilegu fólki myndi líða við að rekast á Leonardo DiCaprio á förnum vegi. Hluta af mér langaði að labba að henni og renna fingrunum í gegnum hárið á henni en ég ákvað að einbeita mér að frönskunum mínum í staðinn. En snúum okkur að verkinu…
Litlaus hjón í ráðgjöf
Sýningin snýst um fremur litlaus hjón, Auði og Albert, sem leita sér ráðgjafar vegna hegðunar sonar síns sem er á unglingsaldri. Ráðgjöfin hættir þó fljótt að snúast eingöngu um soninn og fer að snúast um hjónin sjálf og sambandið þeirra á milli. Ráðgjafinn ýtir á hjónin, spyr þau óþægilegra spurninga, lætur þau gera afkáranlega hluti og þrýstir þeim út fyrir þægindahringinn – þar sem þau einmitt virðast hafa komist sér ansi vel fyrir.
Ólafía fyllir mig sjálfstrausti
Ólafía Hrönn gjörsamlega stelur senunni í hlutverki ráðgjafans. Ég verð að viðurkenna að fyrstu mínútur sýningarinnar – þegar Ólafía byrjaði að bregða á leik, hugsaði ég ,,æ, verða þetta svona kjánalæti?” en sú hugsun var ekki lengi að víkja og ég farin að veltast um af hlátri ásamt öðrum áhorfendum. Hún sýnir alla sína bestu takta og meira til. Ólafía fyllir mig á einhvern hátt innblæstri og sjálfstrausti sem ég fæ ekki útskýrt. Í þessari sýningu sér hún svo sannarlega til þess að þú yfirgefur leikhúsið með bros á vör.
Fullt af dansi og látbragði
Hjónabandið, sem verkið í raun snýst um, skilur mann ekki eftir ósnortin og án spurninga um lífið og ástina yfirleitt. Hvernig hjónaband Auðar og Alberts er málað á sviðinu dansar á mörkum hins fyndna og hins óþægilega. Persónur bæði Margrétar og Baldurs eru þannig að auðvelt er að sjá sjálfa sig og fólkið í kringum sig í þeim.
Auður er yndislega taugaveikluð og óframfærin á meðan Albert er nokkuð rólegur og feiminn mömmustrákur. Ráðgjafinn reynist þeim handfylli og mögulega aðeins of frjálsleg fyrir þeirra litlausa og íhaldssama smekk. Hún nær þeim þó smátt og smátt á sína bylgjulengd og leikar æsast tölvuvert eftir því sem líður á sýninguna.
Leikritið gengur ekki aðeins út á tjáningu með texta heldur er það stútfullt af dansi og látbragði hverskonar. Þetta gefur sýningunni ótrúlega mikið líf og gerir hana ennþá skemmtilegri fyrir vikið. Dansandi Ólafía Hrönn með drapplituð óframfærin hjón í eftirdragi – stórskemmtilegt alveg hreint.
Þú verður ekki svikin af þessari sýningu
Ég fór bæði glöð og dálítið hugsi út af sýningunni. Það kalla ég ljómandi góða blöndu – sýningin skyldi þá eitthvað eftir sig. Hér sit ég núna og velti fyrir mér hinum og þessum hlutum í tengslum við hina ágætu stofnun sem hjónabandið er. Hvað heldur því gangandi? Er einhver uppskrift? Af hverju ráðgjöf – hvaða tilgangi þjónar hún? Hjálpar hún einhverjum? Af hverju að ræða við ókunnugan aðila um það sem maður telur vera sitt allra persónulegasta?
Á meðan ég sit eftir í þessum pælingum legg ég til að þú gerir þér dagamun og skellir þér í leikhús. Þú verður ekki svikin af þessari sýningu. Því get ég lofað.
Guðrún Veiga er mannfræðingur að mennt. Týpískt naut, kann vel að meta veraldleg gæði og þrjósk með eindæmum, fagurkeri og eyðslukló.
Naglalökk eru hennar helsti veikleiki og líkamsrækt stundar hún ekki en viðheldur brennslunni með óhóflegri kaffidrykkju.