Um þessar mundir er snilldarverk í sýningu í Borgarleikhúsinu. Verkið kallast Strýhærði Pétur en það er samið á 19.öld og er eftir þjóðverjann Heinrich Hoffmann og það er skemmtinlegt að segja frá því hvernig verkið varð til.
Á þessum tíma voru krakkar oft mjög hræddir við lækna enda var algengt að börn væru alin upp í ótta. Heinrich tók upp á því að safna saman sögum af vitjunum sínum til 3 – 6 ára barna. Hann myndskreytti bókina og munu margir hafa verið dálítið hneykslaðir þegar bókin út en hún þótti bæði of ævintýraleg og óhugnanleg.
Þannig er verkið um Strýhærða Pétur. Sögurnar eru stuttar, ævintýralegar og hálfóhugnanlegar. Þetta eru dæmisögur um hvernig fer fyrir börnum sem ekki hlýða foreldrum sínum en í raun er aðaádeilan á foreldrana sjálfa. Það er gefið í skyn hvernig foreldrarnir geta gert börn sín að skrýmslum með því að hræða þau, ofdekra eða skeyta ekki um þau.
Þrátt fyrir þungan undirtón er sýningin æðislega skemmtileg. Uppsetningin í Borgarleikhúsinu er líka dásamleg. Mér fannst ég færast aftur í tímann. Ég var heilluð af öllu; leikmyndinni, tónlistinni, leiknum og búningunum og þrátt fyrir að vera gamalt verk á það svo sannarlega erindi við okkur öll, hvort sem við erum foreldrar eða ekki, það skiptir engu máli.
Margir viskumolar hrynja af vörum sögumannsins sem er leikinn af engum öðrum en Hilmi Snæ. Einn molanna sem ég man eftir er þessi:
„Við munum það sem við viljum gleyma og gleymum því sem við viljum muna.”
Fyrir utan það að vera frábær skemmtun þá fannst mér upplífgandi að sjá svona óhefðbundna uppsetningu. Það var svo margt sem kom á óvart og ég vil helst ekki segja frá því. Ég get bara uppljóstrað því að það eru notaðar brúður, skuggamyndir og konfetti rignir yfir áhorfendur. Það var svo margt fallegt fyrir augað. Jón Páll Eyjólfsson leikstjóri er að gera virkilega góða hluti en þeir sem þekkja til hans sem leikstjóra vita það eitt að aldrei er hægt að vita hverju maður getur átt von á. Frábær sýning!
Eva er menntuð sem sviðslistakona úr Fræði og framkvæmd frá Listaháskóla Íslands og menningarmiðlari úr Hagnýtri menningarmiðlun frá Háskóla Íslands. Eva er líka mikill fagurkeri enda fædd í vogarmerkinu.