Ég fór með dóttur minni á sýninguna um Hlina kóngsson og við skemmtum okkur alveg frábærlega báðar tvær.
Sýningin er bæði sögustund og leiksýning í senn sem gerir að verkum að leikararnir mynda tengsl við börnin í áhorfendasal. Þau kynna líka börnin fyrir töfrum leikhússins og ég hugsa að þetta yrði kjörin sýning til þess að fara með barn í leikhús í fyrsta skipti. Sýningin er líka svo skemmtinleg og dóttir mín sem hefur oft farið í leikhús og er komin á skólaaldur naut hennar mjög vel, rétt eins og yngri börnin.
Friðrik Friðriksson leikstýrir og það eru þau Ævar Þór Benidiktsson og Þórunn Arna Kristjánsdóttir sem leika og eru sögumenn. Þau hafa saman spunnið út frá sögunni og gert hana ansi fyndna. HÉR eru skilaboð frá þeim.
Ég las grein á netinu, frá Þýskalandi, þar sem sagt var frá því að nú megi læknar þar í landi skrifa lyfseðla upp á leikhússýningu fyrir börn! Þettta finnst mér alveg frábært enda sýnir þetta hve gott börn hafa af því að stíga inn í leikhúsheiminn! Undanfarin þrjú ár hefur Þjóðleikhúsið boðið börnum í elstu deildum leikskóla með kennurum sínum í heimsókn í leikhúsið til að fræðast á skemmtilegan hátt um leikhúsið og kynnast töfraheimi þess. Sem er ótrúlega gott mál. Og nú er komið að sögunni um Hlina kóngsson.
Hlini kóngson verður sýndur á laugardaginn kl. 13:30 og 15:00 og er miðaverð 1800 krónur (gott verð fyrir svona góða skemmtun og upplifun).
Ekki láta barnið þitt missa af þessari frábæru sýningu!
Eva er menntuð sem sviðslistakona úr Fræði og framkvæmd frá Listaháskóla Íslands og menningarmiðlari úr Hagnýtri menningarmiðlun frá Háskóla Íslands. Eva er líka mikill fagurkeri enda fædd í vogarmerkinu.